Aðskilnaður rannsóknastofnana, hagsmunasamtaka og ríkisvalds

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:33:53 (3596)

1999-02-15 16:33:53# 123. lþ. 65.8 fundur 218. mál: #A aðskilnaður rannsóknastofnana, hagsmunasamtaka og ríkisvalds# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þessi tillaga er afar nauðsynleg þar sem vísindin eru í eðli sínu óháð og sjálfsgagnrýnin. Vísindamaðurinn verður ætíð að setja spurningarmerki við niðurstöður sínar.

Spurningin er: Hver er staða vísindamanns sem hefur ráðlagt þjóð sinni ákveðna lausn, jafnvel í áratugi, og með því valdið að hún hefur ekki aflað eins mikils og hún hefði getað og þannig haft áhrif á lífskjör þjóðar sinnar, ef hann kemst að því seinna meir að hann kunni að hafa haft rangt fyrir sér? Getur hann nokkurn tíma bakkað út úr fyrri fullyrðingum sínum?

Ég tel að með því fyrirkomulagi sem verið hefur hér á landi sé þessi einstaklingur settur í ómögulega stöðu. Ég tel mjög brýnt að aðskilja rannsóknastofnanir og vísindin frá ríkisvaldinu. Vísindi er ekki hægt að stunda undir forsjá ríkisvalds eða annarra sem hagsmuna eiga að gæta, vegna þess að vísindamaðurinn verður ætíð að vera óháður og sjálfsgagnrýninn. Hann verður ætíð að vera tilbúinn til að setja spurningarmerki við niðurstöður sínar. Ég styð því eindregið að þessi tillaga verði samþykkt.