Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:46:17 (3599)

1999-02-15 16:46:17# 123. lþ. 65.13 fundur 262. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgeiðsluhlutfall) frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:46]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 21 frá 1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Magnús Stefánsson og Guðni Ágústsson.

Frv. þetta er í rauninni ekki nema þrjár málsgreinar þar með talið gildisákvæði. Efnislega koma meginatriðin fram í 2. gr. frv. en hún hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

,,Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 8. mgr., svohljóðandi:

Stjórn sjóðsins er heimilt að gefa lánþegum frá ákveðnum byggðarlögum, sem skilgreind eru í reglum er stjórnin setur, kost á lægra endurgreiðsluhlutfalli námslána en almennt tíðkast eða fella greiðslur niður að öllu leyti. Þá er stjórn sjóðsins heimilt, samkvæmt nánari reglum sem hún setur, að veita læknum (og öðrum háskólamenntuðum heilbrigðisstarfsmönnum) og kennurum sambærilega heimild ef þeir að námi loknu setjast í tiltekinn tíma að á stöðum þar sem skortur er á fólki með slíka menntun.``

Þetta var 2. gr. frv., herra forseti.

Nú er það svo að grundvallaratriði í lífi fólks snúast um annars vegar heilsufar og hins vegar um menntun. Segja má að lágmarkskröfur nútímafólks byggi á að hafa gott aðgengi að heilsugæslu og gott aðgengi að skólum. Segja má að slíkt sé í rauninni grundvöllur fyrir tilveru byggðarlaga á Íslandi í dag.

Herra forseti. Á síðustu árum hefur komið fram að ýmsir staðir úti á landsbyggðinni hafa átt í miklum erfiðleikum með að fá menntað fólk til starfa í þeim tveim starfsgreinum eða þeim stéttum sem hér voru nefndar, þ.e. á heilbrigðissviði og kennslu. Með sanni má segja að skortur á slíku fólki hefur átt sinn þátt í að koma róti á íbúa landsbyggðarinnar þar sem þeir telja sig ekki hafa traust aðgengi að vel menntuðu starfsfólki heilbrigðisstofnana né heldur að vel menntuðum kennurum í skólum sínum. Það skapar ákveðna vantrú á framtíðina, vantrú á byggðarlagið og leiðir til rótleysis.

Herra forseti. Á síðustu árum og áratugum hefur ýmislegt verið reynt með nokkuð sérhæfðum aðgerðum til að treysta byggð í sessi víða um landið með misjöfnum árangri. Alltént er það svo að núna búa u.þ.b. 60% þjóðarinnar á höfuðborgarsvæðinu og er það hæsta hlutfall milli svonefnds þéttbýlis eða höfuðborgarsvæðis annars vegar og landsbyggðar hins vegar sem þekkist í Evrópu. Á þingi Evrópuráðsins hefur umræða um þessi mál ítrekað farið fram og telja menn þar blikur á lofti þegar þetta hlutfall er á bilinu 25--35%.

Hugsunin með þessu er í rauninni sú að koma til móts við þessar grundvallarþarfir hjá íbúum landsbyggðarinnar þannig að það verði eftirsóknarverðara en verið hefur fyrir vel menntaða kennara og heilbrigðisstarfsfólk að setjast að á þessum stöðum að námi sínu loknu.

Til viðbótar má nefna það, herra forseti, að fram hefur komið í úttekt sem gerð hefur verið að fólk sem býr fjarri háskólum þarf að leggja meira fé og kosta meiru til til þess að afla sér menntunar og má með sanni segja að þar sé í rauninni verið að brjóta grundvallaratriði sem ég hygg að þjóðin hafi almennt verið sammála um, að þegnar landsins skuli hafa jafnan aðgang að menntun óháð búsetu og efnahag.

Nú er skattkerfið notað til þess að jafna aðstöðumun og til þess að ná fram auknum jöfnuði í samfélaginu og þess vegna er ekki óeðlilegt að líta til lánasjóðsins, sem er í rauninni ekkert annað en niðurgreidd lán til námsfólks, niðurgreidd frá hinu opinbera úr ríkissjóði. Til þess að ná þessum markmiðum leggjum við þetta frv. fram til að jafna aðstöðu fólks af landsbyggðinni til þess að stunda nám, sem og hitt meginmarkmiðið, að efla og hvetja vel menntað fólk úr heilsugæslu og kennslu til þess að fara út á land og nota menntun sína þar og styrkja þar með byggðir landsins. Þessi leið hefur verið farin á nokkrum stöðum, m.a. í Noregi, og er mér tjáð að í Norður-Noregi hafi mönnum tekist ágætlega að snúa við byggðaþróun með aðgerðum af þessum toga.

Frv. felur sem sagt í sér að stjórn lánasjóðsins sé heimilt að lækka endurgreiðsluhlutfall annars vegar námsfólks sem kemur frá slíkum stöðum ellegar fólks sem kemur úr námi og kýs að setjast að á þessum stöðum. Við fórum ekki þá leið í þessu frv. að tilgreina hverjir þessir staðir eru enda hlýtur það ávallt að verða breytilegt og við ætlum stjórn lánasjóðsins að meta það hverju sinni og beita þessu heimildarákvæði.

Ég held ég þurfi ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð og vísa að öðru leyti til greinargerðar en leyfi mér að óska eftir því að málinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. menntmn.