Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:52:54 (3600)

1999-02-15 16:52:54# 123. lþ. 65.13 fundur 262. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgeiðsluhlutfall) frv., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:52]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég skil vel hugsunina að baki þessari tillögu og er hún svo sem góðra gjalda verð. Tillagan tekur hins vegar alls ekki á vandanum. Það að ætla að bjóða fólki sem þarf að flytja búferlum vegna náms lægra endurgreiðsluhlutfall gerir ekkert til að létta undir sókn þess í námið. Endurgreiðslur námslána byrja tveimur árum eftir að fólk hefur lokið námi. Þá geta efnahagslegar aðstæður námsmannsins fyrrverandi verið allt aðrar og vonandi betri en þær voru þegar hann tók ákvörðun um að flytjast búferlum og sækja sér menntun.

Miklu nær væri að styrkja þá sem þurfa að flytja búferlum vegna náms beint þegar á námstímanum. Það er nú gert að nokkru með mismunandi lánsupphæðum sem miðast við hvort einstaklingur er í leiguhúsnæði eða foreldrahúsum eða erlendis í námi, en það er hárrétt sem segir í greinargerð með tillögunni, með leyfi forseta:

,,Þó að reglur lánasjóðsins taki að nokkru tillit til þess þá standa lánin engan veginn undir öllum útgjöldum þessara nemenda. Þess vegna má segja að námsmenn þjóðarinnar standi ekki jafnfætis hvað varðar aðgengi að námi.``

Vandamálið verður hins vegar ekki leyst með þeim hugmyndum sem eru í þessari tillögu og vona ég að frekari vinnsla hennar taki á þeim þætti. Fólk, sem er að sækja sér nám, þarf á peningum að halda á meðan á námi stendur. Einhver óskilgreind eftirgjöf á endurgreiðslum, sem kemur ekki til framkvæmda fyrr en tveimur árum eftir að námi lýkur, mun ekki hjálpa því neitt til að sækja nám sitt. Því er þessi hluti tillögunnar í besta falli yfirklór og ættu flutningsmenn hennar frekar að beita kröftum sínum og aðild að meiri hluta á Alþingi til þess að berjast fyrir verulegri hækkun námslána, aukningu námsstyrkja og léttari endurgreiðslubyrði almennt.

Hv. 7. þm. Reykn. og 1. flm. þessarar tillögu hefur löngum verið talsmaður slíkra hugmynda og veit ég að hann er að vinna í þeim málum og það ber að þakka.

Síðari hluti tillögunnar fjallar um að veita læknum, heilbrigðisstéttum og kennurum eftirgjöf á námslánaskuldum. Ég spyr: Hvers eiga aðrir sem þurftu að taka námslán og kjósa að setjast að á landsbyggðinni að gjalda? Ég spyr einnig: Á þessi eftirgjöf, ef fallist verður á að hún nái til allra háskólaborgara á reglugerðarskilgreindri landsbyggð, aðeins að ná til þeirra sem eru í vinnu hjá hinu opinbera? Hvað með þá sem eru að fara út á land og byggja þar upp öflug fyrirtæki og skapa fólki atvinnu? Eru þeir ekki mikilvægir líka? Svo mikilvægir að þeir ættu að eiga kost á eftirgjöf á námslánum?

Herra forseti. Hér verður ekki betur séð en verið sé að stinga upp á því að eftirgjöf á námslánum verði laumað inn í launakjör opinberra starfsmanna. Þá er verið að festa í sessi misrétti á milli borgaranna með tilliti til efnahags þar sem það vill stundum gleymast að ekki þurfa allir að taka námslán. Hvað á að bjóða lækninum sem fór í gegnum nám sitt án þess að taka námslán? Auðvitað hærri laun en þeim sem þurfti að taka námslán þar sem ekki er hægt að bjóða honum upp á eftirgjöfina.

Þannig er verið að innleiða mismunun á milli þeirra háskólaborgara sem eru af ríku foreldri og hinna sem eru það ekki og þurftu að framfleyta sér og sínum á námslánum á meðan á námi stóð. Ég vona að þingheimur geri sér grein fyrir þessu.

Herra forseti. Tillagan er án minnsta vafa vel meint en því miður fremur vond og miðar annars vegar að engri lausn og hins vegar að því að auka misréttið í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Hvernig getur góð meining verið vond?) Tillagan er vond en meiningin er góð. Ég er sannfærður um að flutningsmenn ætluðu sér aðra og betri hluti og hvet þá til annarra og meiri dáða.