Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:56:29 (3601)

1999-02-15 16:56:29# 123. lþ. 65.13 fundur 262. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgeiðsluhlutfall) frv., Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:56]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Árna Magnússyni fyrir undirtektirnar. En mér fannst að vísu gæta dálítillar mótsagnar. Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. að þetta frv. er ekki hugsað sem nein patentlausn, ekki á nokkurn hátt. Enda hygg ég að hún verði seint fundin í þeim viðkvæma málaflokki sem er fjármögnun náms fyrir ungt fólk.

Hins vegar, og þess er getið í greinargerð og reyndi ég að koma því fram í framsöguræðu minni, er verið að ræða um ákveðin grundvallaratriði í lífi fólks hvar sem er, hvort heldur er á höfuðborgarsvæði eða á landsbyggð, þ.e. að hafa aðgengi að vel menntuðu fólki í heilbrigðisgeiranum og í menntamálum. Það eru grundvallaratriði fyrir líf fólks á þessum stöðum og það er hugsunin á bak við málflutninginn.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. að þar skiptir líka verulegu máli að frumkvöðlar og aðrir slíkir í atvinnulífinu, komi til þessara staða. En ég hygg að það sé hægt að gera með öðrum leiðum, m.a. í gegnum skattkerfið, og höfum við tveir flutningsmanna þessa frv. einmitt bent á þá leið, varpað henni fram til umræðu, hvað varðar skattkerfið fyrir m.a. frumkvöðla í atvinnulífinu, að það megi koma til móts við þá í gegnum skattkerfið þannig að það verði hvati fyrir þá að setjast að úti á landsbyggðinni.

Ég vek athygli á því af því að hv. þm. hvatti okkur til þess að beita okkur fyrir hækkun námslána og námsstyrkjum, að í upphafi þessa kjörtímabils var það gert. Þá var tekið á námslánunum, m.a. vegna þess að hv. alþýðuflokksmenn skildu þann sjóð eftir í heldur dapurri stöðu á síðasta kjörtímabili. Á því var tekið á þessu kjörtímabili og því var breytt. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að síðar í dag mun ég mæla fyrir frv. til laga um styrktarsjóð námsmanna.

Ég hygg hins vegar að ekki sé mikill efnislegur ágreiningur á milli okkar um þetta, ekki stórbrotinn. En að gefnu tilefni vil ég þó taka fram að ég hygg að á því kunni að vera mikill munur fyrir námsfólk sem er t.d. að ljúka háskólanámi og er með þungar námsskuldir á bakinu, hvort það er að borga 7% af brúttólaunum í endurgreiðslu eða 4,75% eins og nú er í stað þeirra 7% sem áður voru í lögum um lánasjóðinn eða 0%. Það er einmitt sá sveigjanleiki sem verið er að velta upp með þessu frv. Og 4,75% af brúttólaunum fyrir fólk með námsskuldir á bakinu, eins og hv. þm. ugglaust veit, enda nýkominn úr námi, þá munar það töluvert miklu fyrir fólk, einmitt þegar það kemur úr námi, er að stofna fjölskyldu, eignast þak yfir höfuðið o.s.frv.