Laun forseta Íslands

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:46:30 (3615)

1999-02-15 17:46:30# 123. lþ. 65.11 fundur 246. mál: #A laun forseta Íslands# (skattgreiðslur) frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:46]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10/1990, um laun forseta Íslands. Flutningsmenn eru hv. 1. flm. Ólafur Hannibalsson, sem á ekki sæti núna á Alþingi, og sá er hér mælir.

Frv. gengur út á það að afnema skattfrelsi forseta Íslands á öllum sviðum. Núna eru forsetinn og maki hans skattfrjáls að öllu leyti. Þau greiða ekki tekjuskatt, ekki fjármagnstekjuskatt, ekki eignarskatt, ekki virðisaukaskatt og ekki vörugjöld og tolla svo dæmi séu nefnd. Þó greiða þau skatta af eigin atvinnurekstri.

Þessi ákvæði, sérstaklega varðandi makann, eru löngu úrelt og eiga sér enga stoð, sérstaklega þar sem makinn er í síauknum mæli farinn að vinna sjálfur, ef um konur er að ræða, fyrir eigin tekjum og afla sér eigin réttinda þannig að þetta er dálítið ankannalegt ákvæði.

Ákaflega erfitt er að meta þessi hlunnindi til fjár vegna þess að skattfrelsið breytir neysluvenjum þess einstaklings sem gegnir embætti forseta Íslands.

Herra forseti. Tilgangur frv. er að allir þegnar landsins séu jafnir fyrir lögum og í öðru lagi að gera laun gegnsæ. Því er haldið fram að laun hér á landi séu ákaflega ógegnsæ og það jafnvel svo að venjulegir launamenn vita ekki nákvæmlega hvaða laun þeir hafa. Þeir fá alls konar hlunnindi og það er meining flutningsmanna að mjög brýnt sé að vinda ofan af þessu þannig að launakerfi landsmanna verði gegnsærra og þá alveg sérstaklega opinberra starfsmanna.

Ekki er ætlan flutningsmanna að lækka laun forseta Íslands eða skerða kjör hans á nokkurn hátt enda óheimilt skv. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar. Þess vegna er lagt til í bráðabirgðaákvæði að kjör hans og laun verði hækkuð sem nemur því sem hann verður að greiða af sköttum. Sambærilegt við þetta er sjómannaafslátturinn sem nokkrir þingmenn hafa einnig lagt til að verði felldur niður vegna þess að hann er líka dæmi um það að ekki séu allir borgarar jafnir fyrir lögum.

Herra forseti. Í eina tíð greiddi aðallinn ekki skatta og ekki kóngurinn og það þótti allt í lagi. Nú hefur þetta breyst og það er ákveðin söguleg þróun, bæði í heimspeki og í viðhorfum manna sem felur í sér að virðing manneskjunnar og gildi einstaklingsins er sífellt meira metin og að allir séu jafnir. Þess vegna er skattfrelsi forseta Íslands og maka hans alger tímaskekkja nú á dögum.

Herra forseti. Samkvæmt launamati Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem birtist nýlega í fréttabréfi þess stéttarfélags kom fram að það er mat hagfræðings Verslunarfélags Reykjavíkur að laun forseta Íslands séu að ígildi 1.240 þús. á mánuði þó að þau séu sögð 470 þús. og er það vegna skattfrelsis að hluta til en einnig vegna lífeyrisskuldbindinga þar sem ekki er greitt nægilegt iðgjald til að standa undir þeim skuldbindingum. Sambærilegar tölur komu fram um forsrh., að hann væri með 940 þús. á mánuði í stað 460 þús. og einnig komu upplýsingar um ráðherra og alþingismenn. Megininntakið var það að þar sem lífeyrisskuldbindingar væru í engu samræmi við það 10% iðgjald sem greitt er af þessum launum væri um duldar tekjur að ræða.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, og tek undir þessa frétt frá Verslunarfélagi Reykjavíkur, að laun eigi að vera gegnsæ. Það á að sýna laun og það á að borga iðgjald í lífeyrissjóð sem nemur þeim réttindum sem menn eru að fá þannig að þetta mál sem hér er flutt er einmitt dæmi um það hvernig unnið er að því að bæta gagnsæi launa.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.