Laun forseta Íslands

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:51:45 (3616)

1999-02-15 17:51:45# 123. lþ. 65.11 fundur 246. mál: #A laun forseta Íslands# (skattgreiðslur) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 10. þm. Reykv. kom inn á að allir skuli vera jafnir fyrir skattalögum og er það ekki fyrsta ræða hans í þá veru, með ívafi og tilvitnun í sjómannaafslátt, svo og laun forseta Íslands. Ég hef sagt það áður og þykir rétt að endurtaka það að það er alltaf einn hópur sem hv. þm. gleymir þegar hann er að tala um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Það er hann sjálfur og allir þeir sem vinna hjá hinu opinbera. Skattaívilnun þeirra felst í nokkuð sérstöku máli sem byggist á því að ríkið rekur líklega 200 eða 300 mötuneyti og þar gerast kaupin á eyrinni þannig að opinberir starfsmenn og við hv. alþm. erum að kaupa fæði sem kostar 300 kr. sem við borgum fyrir það en líklega er verðgildi þess 700--800 kr. Hvers vegna skyldi nú ekki þessi hv. þm. koma með tillögu um að opinberir starfsmenn greiddu skatta af þessum hlunnindum, þ.e. mismuninum á milli greidds verðs og raunverulegs verðs?