Fjarvinnslustörf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:02:10 (3619)

1999-02-15 18:02:10# 123. lþ. 65.19 fundur 270. mál: #A fjarvinnslustörf á landsbyggðinni# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:02]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég kem upp í hverju þingmannamáli stjórnarliða á fætur öðru og mæli með þeim. Hv. 5. þm. Norðurl. v. flytur hér afar gott mál um að skoða möguleika á fjarvinnslustörfum á landsbyggðinni. Ef eitthvað mun gera skipulagða byggðastefnu óþarfa þá er það sú tækni, sem við sjáum þróast á ótrúlegum hraða á hverju ári með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ég get nefnt dæmi af sjálfum mér. Ég hef búið í San Francisco undanfarin ár og jafnframt átt kost á að skrifa í íslensk blöð eins og ég væri staddur hér heima, sinna dálitlu aukastarfi með skrifum í tímarit sem hér er starfrækt. Þar hefur engu máli skipt þó hálfur hnötturinn væri á milli.

Þessi tækni mun gefa fólki kost á að vega og meta kosti búsetu og njóta kosta þess að búa úti á landi, sem eru ótvíræðir. Það eru ótvíræðir kostir við að búa í nánum tengslum við náttúruna í smáu samfélagi, jafnvel í faðmi fjölskyldu og vina sem þar hafa búið um langan aldur í stað þess að þurfa að flytjast búferlum til að geta sinnt starfi við sitt hæfi. Þetta er þegar farið að hafa þau áhrif í Bandaríkjunum að fólk er farið að flytjast í auknum mæli aftur til miðríkjanna sem voru nánast yfirgefin um miðbik þessarar aldar. Menn streymdu til borganna við ströndina, borga eins og San Francisco og sprengdu þar húsaleigu upp úr öllu valdi. Nú er hámenntaða fólkið sem vinnur í hátækniiðnaði farið að flytja aftur inn í hin frisælu miðríki og sinnir þar störfum sínum eins og það væri í vinnunni sinni í San Francisco.

Á Ísafirði gæti fólk þannig svarað í síma eða hvað annað sem gert er í ríkisstofnunum og gefið samband til Egilsstaða eins og það væri að gefa manni í næsta herbergi línuna. Þetta er afskaplega ódýr og góð lausn á vanda hinna dreifðu byggða þar sem frelsi fólks til búsetu er aukið. Þess vegna styð ég þetta mál heils hugar.