Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:21:38 (3624)

1999-02-15 18:21:38# 123. lþ. 65.25 fundur 356. mál: #A jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar# þál., Flm. ArnbS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:21]

Flm. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um undirbúning jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Meðflutningsmaður minn er hv. þm. Egill Jónsson. Tillagan er á þskj. 488 og er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hefja nú þegar undirbúning að gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Miðað verði við að framkvæmdir hefjist árið 2003.``

Hæstv. forseti. Tillagan miðar sem sagt að því að hefja strax undirbúning að gerð jarðganganna. Töluverðan tíma tekur jafnan að undirbúa slíka stórframkvæmd. Nauðsynlegt er að sá undirbúningur hefjist nú þegar, ekki síst með tilliti til þess að af sjálfu leiðir að aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir hljóta að frestast ef af jarðgangagerð verður á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Gera má ráð fyrir að undirbúningur slíkrar framkvæmdar taki a.m.k. tvö til þrjú ár. Nú þegar hefur verið áætlað fyrir rannsóknarfé til Austfjarðaganga og er tiltækt fé nú um 27 millj. kr. Af þeim sökum er ekkert því til fyrirstöðu að hefja undirbúning og rannsóknir strax.

Ég vil að mestu vísa til greinargerðarinnar með tillögunni en lykiltillögur varðandi þessi göng eru að þau eru 5,3 km að lengd og kosta um 2,2 milljarða. Að frádregnum þeim framkvæmdum sem má fresta eða hætta við má segja að nettókostnaðurinn sé um 1,3 milljarðar.

Umræða um jarðgangagerð á Austfjörðum á sér langa sögu sem verður ekki rakin hér að öðru leyti en því að í skýrslu nefndar um jarðgangaáætlanir frá 1987 var lagt til að forgangsraða jarðgöngum með þeim hætti að fyrst kæmi Ólafsfjarðarmúli, því næst Vestfjarðagöng og að því loknu göng til að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar og Norðfjarðar. Fyrri tvær framkvæmdirnar hafa gengið eftir eins og menn þekkja. Gert hafði verið ráð fyrir að framkvæmdir við Austfjarðagöng mundu hefjast árið 1998.

Í nefnd samgrh. um undirbúning jarðgangagerðar á Austurlandi, sem skilaði nál. 1993, var enn gert ráð fyrir þeirri framkvæmdaröð sem fyrr er nefnd. Niðurstaða þeirrar nefndar var sú að fyrst skyldi rofin vetrareinangrun Seyðisfjarðar og Norðfjarðar og í seinni áföngum skyldi farið í að stytta vegalengdir. Nefndin skoðaði fleiri jarðgangakosti og m.a. göng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar til styttingar vegalengdum. Byggist tillaga þessi og greinargerð á efni skýrslu nefndarinnar.

Mikil þróun hefur orðið í vegagerð og í tækni við snjómokstur. Það leiðir til þess að nauðsyn jarðganga til að rjúfa vetrareinangrun hefur minnkað. Þess í stað sýnir sig í byggðaþróun á Austurlandi að nauðsynlegt er að stytta vegalengdir til að skapa betri atvinnu- og þjónustusvæði. Mikil fólksfækkun hefur orðið á suðurfjörðum Austfjarða og er því nauðsynlegt að tengja suðurfirði við Fjarðabyggð og yrði þá til öflugt atvinnusvæði.

Þess er að geta að aðstæður og viðhorf eru gerbreytt frá því að jarðganganefndin gerði tillögur sínar. Vetrarþjónusta hefur verið stóraukin á Oddsskarði og Fjarðarheiði en þar hefur mokstur verið aukinn úr þremur dögum í sjö og daglegur þjónustutími lengdur og þannig dregið verulega úr vetrareinangrun. Meira er nú horft til þess að stytta leiðir og þétta byggð. Annað sem nefna má og er veigamikið atriði í þessu tilliti er að jarðgöngin mundu stytta leiðina með fjörðum um 35 km þannig að ekki verður nema 10 km lengra frá Egilsstöðum fjarðarleiðina suður en ef farin er Breiðdalsheiði. Fjarðarleiðin er öll á láglendi en Breiðdalsheiði er 470 m hár fjallvegur. Göngin gjörbreyta öllum aðstæðum á svæðinu og losa um einangrun suðurfjarða. Miðausturland styrkist því verulega sem samfellt þjónustusvæði og sem eitt mikilvægasta vaxtarsvæði á landsbyggðinni.

Fyrir arðsemisreikninga var gerð lausleg umferðarspá. Þegar jarðgangaframkvæmdir voru bornar saman við kostnað við að endurbyggja núverandi veg og leggja á hann bundið slitlag reiknaðist arðsemin verða allt upp í rúm 8% fyrir háspá.

Arðsemi er væntanlega mun meiri en fram kemur í greinargerðinni þar sem auk þess að hætta við framkvæmdir á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar má fresta framkvæmdum á stórum hluta á leiðinni um Breiðdalsheiði. Í öðru lagi komast hjá dýrum öryggisaðgerðum í Vattarnesskriðum, sem vafalaust verður gerð krafa um. Þar hafa nú þegar orðið tvö dauðaslys á undanförnum árum og legið við því þriðja. Í þriðja lagi leggja af vetrarþjónustu á Breiðdalsheiði, sem annars mun líklegast aukast á næstu árum. Og í fjórða lagi einfalda vegakerfið með einni meginleið suður í stað tveggja sem býður upp á mikla hagræðingu fyrir Vegagerðina og bætta þjónustu fyrir vegfarendur.

Í langtímaáætlun segir að til byggingar jarðganga geti komið með sérstakri ákvörðun stjórnvalda. Jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar leiða til mikillar hagræðingar í samgöngulegu og byggðalegu tilliti. Æskilegt er að ráðast strax í frekari skoðun og rannsókn á aðstæðum svo styrkja megi grundvöll ákvarðanatöku varðandi hugsanlega gangagerð.

Hæstv. forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til hv. samgn. að lokinni umræðunni.