Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:28:15 (3625)

1999-02-15 18:28:15# 123. lþ. 65.25 fundur 356. mál: #A jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:28]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú tillaga sem við ræðum hér og mælt hefur verið fyrir af hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um undirbúning jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar er allrar athygli verð en flutningur málsins kemur hins vegar að mörgu leyti nokkuð á óvart.

Varðandi jarðgangahugmynd þá sem hér um ræðir vil ég segja það að hún er einn af þeim kostum sem hafa verið til athugunar og umræðu í hópi þingmanna Austurlands og á vegum sveitarfélaga á Austurlandi eða samtaka þeirra en þau hafa ítrekað ályktað um þessi efni og síðast líklega fyrir einum þremur árum. Málið er frá þeim tíma að mati sveitarfélaganna eða sambands þeirra á Austurlandi í höndum þingmanna kjördæmisins og á þeim vettvangi hefur sá sem hér talar ítrekað ýtt á eftir því að mál þessi væru rædd í hópi þingmanna með það fyrir augum að skapa sem besta samstöðu í hópnum. Það gerði ég fyrir einu og hálfu ári eða svo en viðbrögðin hafa ekki verið eins og ég hafði vænst. Þó var haldinn fundur, ef ég man rétt, fyrir rösku ári þar sem farið var enn og aftur yfir stöðu þessara mála með Vegagerð ríkisins að viðstöddum þingmönnum kjördæmisins.

[18:30]

Jarðgangamálin hafa verið í umræðu á Austurlandi í meira en áratug en eins og menn þekkja hefur ekki verið mikið um framkvæmdir á þessu sviði ef frá eru talin jarðgöng gegnum Ólafsfjarðarmúla og síðan jarðgöngin miklu á Vestfjörðum sem þáv. samgrh. Steingrímur J. Sigfússon hafði frumkvæði að á tímum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988--1991. Segja má að með þeirri ákvörðun sem þá var tekin að frumkvæði Alþb. og ráðherra þess með stuðningi ríkisstjórnar hafi komist skriður á jarðgangaumræðuna fyrir utan það sem ákveðið hafði verið og var þá unnið að sem voru jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla.

Þegar ákvörðunin var tekin um Vestfjarðagöng lá það fyrir sem vilji Alþingis, eins og ég mat a.m.k. málið á þeim tíma, að að loknum framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum yrði ráðist í jarðgöng á Austurlandi ekki síðar en á árinu 1998. Sú framkvæmd ætti því samkvæmt því sem bókað var í langtímaáætlun 1991 að vera komin af stað, átti að hefjast 1998. En við þetta var ekki staðið.

Af minni hálfu og samþingmanns míns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, hefur ítrekað verið ýtt á eftir loforðunum um jarðgangagerð á Austurlandi. Til þess að hreyfa við þessum málum og í samhengi við lagningu uppbyggðs vegar milli Austurlands og Norðurlands fluttum við á árunum eftir 1990, ég held að það hafi verið 1993, ítrekað tillögu um athugun á vegasambandi með ströndinni um Norðausturland og með jarðgöng undir Hlíðarfjöll til Vopnafjarðar sem lið í þeirri framkvæmd að byggja upp vetrarsamgöngur með byggðum milli Akureyrar og Austurlands og að Vopnafjörður yrði tekinn inn í samgöngukerfi landsins með myndarlegum jarðgöngum undir Hlíðarfjöll.

Við þessu var ekki orðið en þáv. og reyndar núv. hæstv. samgrh. knúði fram þá stefnu að byggja upp veginn yfir Fjöllin, eins og nú er unnið að, og ekki var litið á þann kost að koma ársvegi með ströndinni með byggðum um Norðausturland, sem hefði að mínu mati hefði verið mjög farsæl framkvæmd að meðtöldum jarðgöngum. En á þetta var ekki hlustað.

Síðan gerist það í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili, og það er undir sömu forustu Sjálfstfl. sem sú ríkisstjórn starfar, sömu forustu og komst til valda 1991, að allar hugmyndir um jarðgangagerð hafa verið kveðnar svo rækilega niður að í langtímaáætlun, sem samþykkt var á síðasta þingi, að hvergi sést kræla á hugmyndum um framkvæmdir við jarðgöng og aðeins var að finna samtals, ef ég man rétt, 120 millj. kr. til rannsókna fram til ársins 2010. Það er stefnan sem núv. ríkisstjórn hefur markað í þessum málum. Við umræður um vegáætlunina voru þessi mál mikið rædd.

Því má segja að það sæti nokkrum tíðindum að tveir hv. þm. úr stjórnarliði og samflokksþingmenn núv. hæstv. samgrh. taka sig fram um það að flytja tillögu um undirbúning að gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og miða við að framkvæmdir hefjist árið 2003. Ég tek eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. samgrh. er hvergi viðstaddur umræðuna. Sá hinn sami hefur vissulega marglýst því yfir úr þessum ræðustól að hann hafi engan áhuga á jarðgangagerð á tíma núverandi langtímaáætlunar til ársins 2010. Það er því erfitt að taka þann tillöguflutning sem hér er alvarlega að því leyti að það séu horfur á því að þessi hugmynd njóti stuðnings í liði ríkisstjórnarinnar og stuðnings hæstv. samgrh. Þegar jarðgöng hefur borið á góma, og það er m.a. í tengslum við tengingu Siglufjarðar við Eyjafjarðarsvæðið, hefur hæstv. samgrh. þvert á móti frekar ýtt undir þá hugsun, en allt er þetta eins og hljóð í tómri tunnu því að enga peninga er að hafa á þeim áætlunum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram.

Þetta hef ég ítrekað gagnrýnt. En ég hef ætíð sagt það í hópi þingmanna Austurlands að ég væri reiðubúinn til þess að leita samstöðu í þann hóp um framkvæmdir og framkvæmdakosti við jarðgangagerð á Austurlandi. Ég er reiðubúinn til slíks, ef það mætti verða til þess að ná ákvörðun í því, og alveg reiðubúinn að láta af prívatskoðunum ef það gæti orðið til þess að mynda samstöðu í hóp þingmanna kjördæmisins. Það eru hvorki meira né minna en fjórir af fimm sem eru í stjórnarliðinu af þeim vaska hópi sem þar um ræðir. Það ætti að vera hægurinn hjá ef raunverulegur áhugi er á því í stjórnarliðinu að ná einhverju landi í máli sem þessu.