Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:42:01 (3628)

1999-02-15 18:42:01# 123. lþ. 65.25 fundur 356. mál: #A jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar# þál., Flm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:42]

Flm. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að við flm. þessarar tillögu vorum ekki sérstaklega að beina spjótum okkar að framsóknarþingmönnum. Ef það er niðurstaða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er það mikill misskilningur. Þetta er hins vegar mál sem skiptir okkur Austfirðinga mjög miklu og er mjög nauðsynlegt að komist skriður á umræðu um þessi mál.

Ég er þess fullviss að þegar þessi ákveðni jarðgangakostur verður skoðaður sem þáttur í vegaframkvæmdum á Austurlandi muni menn líta það mjög alvarlegum augum að taka þessa framkvæmd inn í framkvæmdaröð í vegagerðarmálum á Austurlandi.

Að öðru leyti vil ég ítreka að hér er um mjög arðsama framkvæmd að ræða og hún kemur til með að styrkja byggð á þessu svæði og undirbyggja jafnvel að komi til stóriðjuframkvæmda á Reyðarfirði, eins og áætlanir eru uppi um, þá er þetta mjög til þess að styrkja þá ákvarðanatöku. Allt ber þetta að sama brunni að við erum að ræða um mjög góða og heppilega framkvæmd sem kemur til með að styrkja Austfirðinga og austfirska byggð.