Virðisaukaskattur

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:46:41 (3630)

1999-02-15 18:46:41# 123. lþ. 65.26 fundur 375. mál: #A virðisaukaskattur# frv., Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:46]

Flm. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Fyrsta grein frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Skipulagðar útihátíðir. Útihátíð merkir í lögum þessum skipulagða skemmtun sem haldin er utan dyra á afmörkuðu svæði, stendur eigi skemur en einn sólarhring og aðgangur er seldur að.``

Með frv. þessu er lögð til sú breyting á lögum um virðisaukaskatt að skipulagðar útihátíðir verði undanþegnar virðisaukaskatti.

Nokkrar skipulagðar útihátíðir eru haldnar hér ár hvert, í flestum tilvikum um verslunarmannahelgina í byrjun ágúst en einnig á öðrum tímum sumarsins. Hefð er komin fyrir slíku mótshaldi víðs vegar um land og eru menn þar að vinna vinnu við erfið skilyrði og ótrygg því að þessar hátíðir eru háðar veðurfari eins og gefur að skilja og mörg dæmi eru um það að íþróttafélög og önnur félög sem staðið hafa fyrir slíkum hátíðum hafi lent í miklum fjárhagslegum vandræðum vegna einmitt ótryggs veðurs. Gott dæmi er Ungmennafélag Íslands á Austurlandi sem margoft hefur reynt að halda uppi útihátíðum eystra til þess að sýna þar ákveðna þjónustu við heimafólk og farið mjög illa út úr því fjárhagslega, en einmitt í mörgum þeim tilvikum hefði niðurfelling á virðisaukaskatti getað ráðið úrslitum um að hlutir hefðu getað gengið fram.

Þessi breyting á lögum um virðisaukaskatt er þess vegna fyrst og fremst réttlætismál til þess að jafna stöðu landsbyggðarinnar gagnvart þéttbýlisstöðum landsins sem oft og tíðum eru með útihátíðir sem ekki er einu sinni seldur aðgangur að vegna fjölmennis sem sækir þær og ríkidæmis þeirra sem standa að þeim, svo sem eins og höfuðborgarinnar og annarra stærri sveitarfélaga landsins. Þarna er því um mikla mismunun að ræða. Í rauninni ætti frekar að verðlauna þá sem standa fyrir útihátíðum á Íslandi en að refsa þeim eins og gert er til að mynda með innheimtu virðisaukaskatts af þessum hátíðum. Yfirleitt eru þessar hátíðir líka margþættar, dagskráin er margslungin og menn hafa með þessu móti verið að skattleggja til að mynda guðsþjónustur, íþróttir barna og annað.

Ég legg til að að lokinni umræðu þá verði frv. vísað til efh.- og viðskn.