Stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 19:05:36 (3635)

1999-02-15 19:05:36# 123. lþ. 65.34 fundur 457. mál: #A stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum# þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[19:05]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 755 er till. til þál. um stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum. Flm. auk mín eru hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson, Einar Oddur Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Tillgr. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að undirbúa stofnun miðstöðvar nýbúa á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarstjórnir, Rauða kross Íslands og Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi.``

Á þjóðfélagi okkar hefur sú breyting orðið að meira er um að fólk flytji til og frá landinu. Hér á landi búa allmargir nýbúar, sem svo eru kallaðir, fólk af erlendu bergi brotið sem kosið hefur að hasla sér völl í samfélagi okkar. Það er vissulega ánægjuefni. Hverju þjóðfélagi er mikilvægt að hafa til að bera tiltekna menningarlega fjölbreytni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að almennt sé þessi þróun þjóðfélagi okkar til góðs. Þetta hefur hefur aukið á fjölbreytnina, skapað ný tækifæri og leitt til okkar nýja menningarstrauma sem blandast hafa okkar. Í þeirri deiglu er kraftur og úr henni hafa nýjar hugmyndir komið og hafa vissulega verið okkur til góðs.

Eins og við vitum ganga þessir hlutir ekki alltaf snurðulaust fyrir sig. Því miður verðum við stundum vör við að vandamál komi upp í þessum efnum. Mikilvægt er fyrir siðmenntaða þjóð eins og Íslendinga að takast á við slík vandamál. Kannski verða málin meira áberandi í litlum samfélögum, t.d. á Vestfjörðum, þar sem mikill fjöldi útlendinga hefur komið til starfa og býr í ýmsum minni sveitarfélögum. Þar er um að ræða umtalsverðan hluta heildaríbúatölunnar. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í fskj. þá eru t.d. um 5% íbúanna á Vestfjörðum með erlent ríkisfang. Hér er ekki um smátölu að ræða. Það mundi svara til þess að í Reykjavík væru um 5 þúsund manns með erlent ríkisfang. Við sjáum að við þær aðstæður verða til ný viðhorf. Mér er mjög illa við að tala um það sem eitthvert vandamál en verkefni okkar er fyrst og fremst að mæta þeim viðhorfum.

Einnig er athyglisvert að á þessu fámenna svæði, Vestfjörðum þar sem innan við 9 þúsund manns búa, býr fólk frá 38 þjóðum. Þarna er því um mjög mikla fjölbreytni að ræða.

Tilgangurinn með þessari tillögu er eins og fram kemur, að auðvelda þá miklu breytingu sem við stöndum frammi fyrir og aðlaga þannig að hún gangi sem best fyrir sig. Á Vestfjörðum er mikil reynsla komin á samskipti íbúa og fólks af erlendu bergi brotið. Það hefur almennt gengið vel fyrir sig. Þetta fólk hefur komið til starfa og unnið þýðingarmikla vinnu sem verið hefur þjóðinni til heilla. Sem betur fer hefur þetta almennt gengið afar vel. Við sem búum á Vestfjörðum teljum hins vegar að mikilvægt sé fyrir okkur að setja málin í fastar skorður og í þeim anda er þessi tillaga flutt.

Ég vil vekja athygli á því að bæjarráð Vesturbyggðar hefur fjallað um þessi mál og vakti athygli á að á þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga hafi málið verið skoðað. Niðurstaða þeirra hjá Fjórðungssambandinu var að þessi mál þyrftu meiri íhugunar við og ekki væri eðlilegt að slá því föstu að þessi aðlögunarvinna færi fram í einni skrifstofu, nýbúaskrifstofu en hins vegar væri athugandi að fella þetta inn í félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Ég vil taka skýrt fram að ég tel þessi sjónarmið geta fallið ágætlega saman. Ég tel eðlilegt, eins og bent er á af hálfu bæjarráðs Vesturbyggðar, að þessi mál séu sett inn í félagskerfi sem sveitarfélögin sjálf hafa byggt upp, t.d. í skólakerfið. Sveitarfélögin hafa nú grunnskólastigið á sinni könnu en það breytir ekki því að mikilvægt væri að hafa einn samræmingaraðila í kjördæmi þar sem um svo marga nýbúa, fólk af erlendu bergi brotið, er að ræða. Að mati okkar sem flytjum þessa tillögu er því nauðsynlegt að þrátt fyrir að við reynum að fella þessa aðlögunarvinnu að félagskerfinu hjá sveitarfélögunum, þá þurfi jafnframt skrifstofu til að sjá um samræmingu.

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsti vilja sínum til að hýsa slíka þjónustu í Vesturbyggð. Það er reiðubúið til að veita alla þá aðstoð sem til þarf. Ég vil beina því til þingnefndarinnar sem fær þetta mál til meðhöndlunar að kanna þessa ábendingu bæjarráðs Vesturbyggðar sérstaklega. Með ósk sinni lýsir það velvilja og jákvæðri afstöðu og á því þurfum við að halda í máli af þessu tagi, sem getur verið vandmeðfarið. Við viljum umgangast þá útlendinga sem þarna starfa af virðingu.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, til marks um það hvernig staðan er á Vestfjörðum, að Alþýðusamband Vestfjarða gaf ekki fyrir löngu út nýja kjarasamninga. Þeir voru bæði gefnir út á íslensku og pólsku til að auðvelda starfsfólki að kynna sér rétt sinn.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta mál. Þetta mál hefur fengið nokkra almenna umræðu. Ég fagna þeirri umræðu sem lýsir að mínu mati velvilja í garð þessa viðfangsefnis. Ég vænti þess að yfirvöld félagsmála taki málinu vel. Að lokinni fyrri umr. legg ég til að málinu verði vísað til viðeigandi nefndar, væntanlega er félmn.