Framtíðarstaða almannatryggingakerfisins

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 19:18:31 (3637)

1999-02-15 19:18:31# 123. lþ. 65.36 fundur 497. mál: #A framtíðarstaða almannatryggingakerfisins# þál., Flm. MLS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[19:18]

Flm. (Magnús L. Sveinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á framtíðarstöðu og þýðingu almannatryggingakerfisins, á þskj. 807. Flutningsmenn með mér eru hv. þm. Árni M. Mathiesen, Sólveig Pétursdóttir, Katrín Fjeldsted, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson og Pétur H. Blöndal. Þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að láta gera ítarlega úttekt á framtíðarstöðu og þýðingu almannatryggingakerfisins, m.a. með tilliti til setningar laga um lífeyrissjóði á síðasta ári.``

Ítarleg greinargerð fylgir tillögunni en ég vil í upphafi máls míns gera leiðréttingu á einu orði í greinargerðinni sem hefur misritast. Það er í síðustu setningunni í næstsíðustu línunni þar sem segir ,,með greiðslum úr atvinnuleysistryggingasjóði``, þar á að sjálfsögðu að standa með greiðslum úr almannatryggingakerfinu. Þessi mistök eru sennilega mér að kenna. Ég hygg að þetta hafi því miður misritast í handriti sem ég lagði fyrir þegar ég afhenti Alþingi tillögur mínar.

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur verið vaxandi umræða í þjóðfélaginu um lífeyris- og tryggingamál. Mikil og almenn umræða varð um málefni lífeyrissjóðanna hér á landi í tengslum við setningu laga um lífeyrissjóði síðasta ári. Sú löggjöf var mjög af hinu góða. En lífeyrissjóðirnir, hvort heldur er Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna eða lífeyrissjóðir á almenna vinnumarkaðinum, eru ekki nema hluti af eftirlaunakerfinu sem við búum við. Þar koma líka til almannatryggingar sem allir skattborgarar greiða til.

Í staðtölum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gefið út er bent á að lífeyriskerfi okkar sé margslungið og reglur verði sífellt flóknari. Stöðugt sé stagað og stoppað í gildandi lög og reglugerðir og svo sé komið að fáir skilji eða þekki þær reglur sem í gildi eru á hverjum tíma. Menn eigi því í erfiðleikum með að standa vörð um réttindi sín. Enginn efast um að slíkt er í andstöðu við réttarvitund almennings. Meðal annars þess vegna er knýjandi að endurskoða almannatryggingakerfið.

En fleira sem kemur til og knýr á um endurskoðun og úttekt á almannatryggingakerfinu. Hér á landi eins og annars staðar í heiminum hafa lífslíkur fólks aukist mjög mikið með bættum efnahag og framförum á heilbrigðissviðinu.

Eins og fram kemur í greinargerðinni með tillögunni hafa lífslíkur fólks í heiminum aukist meira á síðustu 50 árum en á næstu 5000 árum þar á undan. Fram undir iðnbyltinguna miklu í Evrópu og Norður-Ameríku á síðari hluta 19. aldar var fólk 65 ára og eldra 2--3% af öllum íbúum jarðarinnar, eftir því sem næst verður komist. Samkvæmt skýrslu sem hæstv. forsrh. lagði fyrir Alþingi á síðasta ári um stöðu eldri borgara hérlendis og erlendis, var meðaltalshlutfall 65 ára og eldri í OECD-ríkjunum 14% árið 1996. Spáð er að árið 2030 verði þetta hlutfall orðið 22,5%. Ísland er nokkuð fyrir neðan meðaltalið og er gert ráð fyrir að á þessum tíma muni hlutfall aldraðra hér á landi hækka úr 11,5% í 18,8% eða um rúmlega 60% á næstu 30 árum. Hér er um gríðarlega mikla breytingu að ræða. Þetta þýðir að árið 2030 verða 3,3 á vinnualdri á hvern lífeyrisþega, samanborið við 6,6 nú. Því er nauðsynlegt að bregðast við þessari þróun í tíma til að tryggja með sem öruggustum hætti að lífeyrisþegar geti búið við sómasamleg kjör þegar þeir hverfa af vinnumarkaðinum.

Tryggingar, eftirlaun og aðrar tryggingagreiðslur til aldraðra, eru mjög mikilvægur þáttur í velferðarþjóðfélagi. Í hinum háþróuðu ríkjum innan OECD hafa forráðamenn þegar gert sér grein fyrir þýðingu þess að tryggingakerfi viðkomandi ríkja verði eflt. Horfa menn þá helst til svonefnds tveggja stoða kerfis, þ.e. almannatrygginga á vegum hins opinbera og sjálfstæðra lífeyrissjóða, einkum samtryggingarsjóða.

Mikið vantar á að endanleg sátt hafi náðst hér á landi um hvernig þessi tvö tryggingakerfi starfi hlið við hlið. Það hefur skapað óvissu og öryggisleysi og ekki síst gremju meðal meginþorra fólks sem þegar er orðið 65 ára og eldra og einnig fyrir hina fjölmennu árganga sem á næstu árum munu koma með auknum þunga inn í kerfi eftirlaunatrygginga.

Þó að Íslendingar eigi því láni að fagna að aðilar vinnumarkaðarins hafa af fyrirhyggju stofnað lífeyrissjóði á grundvelli samtryggingar á síðustu áratugum, sem margar aðrar þjóðir telja með því besta eftirlaunakerfi sem þekkist í heiminum, er fjarri því að þessir sjóðir geti enn staðið undir þeirri skyldu að veita almennum launþegum fullnægjandi lífeyri að lokinni starfsævi. Hafa verður í huga að flestir lífeyrissjóðirnir á almenna markaðinum eru aðeins 30--40 ára gamlir og því hvergi nærri fullþroskaðir ef þannig má að orði komast. Auk þess hefur hópur fólks þrátt fyrir greiðsluskyldu í lífeyrissjóði, skv. lögum nr. 55/1980, ekki greitt í lífeyrissjóð fyrr en nú á þessu ári samkvæmt nýjum lögum um lífeyrisjóði sem sett voru á síðasta ári.

Íslendingar sem náð hafa 67 ára aldri eða meira eru um 27 þúsund talsins. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins nutu rúmlega 20 þúsund manns eða um 75% af 67 ára og eldri tekjutryggingar á síðasta ári sem þýðir að þetta fólk hafði litlar og takmarkaðar tekjur frá lífeyrissjóðum. Af þessu sést að almannatryggingar verða nú og munu um langan tíma þurfa að brúa bilið á milli greiðslugetu lífeyrissjóðanna og þess sem aldraðir þurfa til að geta lifað mannsæmandi lífi.

Í vaxandi mæli hefur orðið vart mikillar óánægju lífeyrisþega vegna skerðingarákvæða Tryggingastofnunar ríkisins. Þeim fjölgar stöðugt sem komnir eru á eftirlaunaaldur og eru að byrja að fá greiðslur úr almenna lífeyrissjóðakerfinu. Aldraðir hafa vaknað við þann vonda draum að þegar þeir hafa ætlað að fara að njóta ávaxtanna af því að hafa lagt hluta af launum sínum í lífeyrissjóð jafnframt því að hafa greitt iðgjald sitt til almannatryggingakerfisins, oft af lágum launum, eru greiðslur frá Tryggingastofnuninni stórlega skertar. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnuninni miðað við desember sl. byrjar tekjutrygging almannatrygginga að skerðast við 45% þegar tekjur úr lífeyrissjóði eru umfram 29.217 kr. á mánuði og hún fellur alfarið niður ásamt heimilisuppbót þegar tekjur úr lífeyrissjóði ná 91.048 kr.

Skerðingin vegna almennra launatekna er enn meiri og leiðir til þess að hópur fólks nýtur engra eftirlauna frá Tryggingastofnun ríkisins. Hluti af þessu fólki hefur lengst af starfsævi sinni búið við lægstu launin og lagt hluta af laununum í lífeyrissjóð auk þess að greiða skatta sína til samfélagsins, þar með talið til almannatrygginga. Á sama tíma og þessum skerðingarákvæðum er beitt gagnvart greiðendum í lífeyrissjóði er hópur manna sem ekkert hefur greitt til lífeyrissjóða en fær hins vegar fullar bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er verið að hegna þeim sem hafa sýnt fyrirhyggju og látið hluta af launum sínum, oft af litlum efnum, renna til lífeyrissjóða.

Ranglætið í þessu kerfi kemur ekki hvað síst fram í því að þegar lífeyrissjóður hefur hækkað ellilífeyri þá hefur Tryggingastofnunin lækkað bæturnar á móti. Hækkun lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðunum hefur þannig ekki skilað sér nema að hluta til sjóðfélaganna. Það er alveg ljóst að tryggingafélagi á hinum frjálsa markaði mundi ekki líðast að haga sér með þessum hætti. Eða sjá menn það fyrir sér að ef tveir menn keyptu sams konar tryggingu hjá tryggingafélagi, gæti tryggingafélagið skert tryggingabætur annars mannsins af því að hann hefði látið hluta af launum sínum renna í lífeyrissjóð ef tekjur hans færu yfir ákveðið mark?

Ég hygg að almennur skilningur sé á því að það er mjög brýnt að taka allt þetta kerfi til gagngerðrar endurskoðunar. Tillagan sem ég mæli fyrir gerir ráð fyrir slíkri endurskoðun og á grundvelli hennar verði gerðar áætlanir um greiðslur úr hinu tvíþætta tryggingakerfi, þ.e. almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðum, með það að meginmarkmiði að fólki sé ekki mismunað með greiðslum úr almannatryggingakerfinu eins og nú er og að eftirlaun nægi á hverjum tíma til að mæta þörfum fólks til að lifa sómasamlegu lífi. Í þessu sambandi þarf m.a. að skoða vel skattlagningu á lífeyrisgreiðslur með tilliti til þess að stærri hluti þeirra eru til orðinn vegna vaxtatekna lífeyrissjóðanna og væri því eðlilegt að sá hluti væri skattlagður með sama hætti og aðrar fjármagnstekjur.

Herra forseti. Árið 1999 er ár aldraðra samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna. Við búum við almenna velmegun þó vissulega séu aðilar sem þyrftu að búa við betri kjör. Hverjir hafa skilað lengstu dagsverki til að byggja upp þetta velferðarþjóðfélag? Það eru aldraðir sem þetta ár er tileinkað. Það eru aldraðir sem hafa alla starfsævi sína greitt skatta sína til almannatryggingakerfisins og með því rekið styrkar stoðir undir velferðarkerfið sem við viljum vera stolt af. Það sæmir okkur því ekki að gera aldraða að afgangsstærð þegar við skiptum því sem þetta fólk hefur lagt mest til.

Herra forseti. Ég legg til að við lok umræðunnar verði þáltill. vísað til síðari umr. og hv. efh.- og viðskn. og vona ég hún fái fljóta afgreiðslu á hinu háa Alþingi.

[19:30]