Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:46:47 (3641)

1999-02-16 13:46:47# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er alltaf mjög alvarlegur hlutur í sjávarbyggðunum þegar aflabrestur verður og þarf ekki að tíunda það, herra forseti, við þekkjum svo vel til allra landshaga hér.

Sannleikurinn er sá að við þekkjum ákaflega lítið til rækjustofnsins, mjög lítið, og höfum samt verið að gefa hér ráðleggingar og búa til kvóta þar að lútandi um úthafsveiðirækjuna. Margra mál hefur nú verið að við ættum ekki að gera þetta vegna þess að þekking okkar á þessu gæfi ekki tilefni til þess að búa til slíka kvóta. Það væri alveg víst að útgerðarkostnaðurinn, þ.e. olíureikningurinn, mundi hvort sem er stoppa þessar veiðar áður en nokkur hætta væri af þeim. En hitt hefur samt verið ofan á að gefa út þessa kvóta.

Eins og allir vita hefur samdrátturinn valdið mjög miklum vandræðum. En því miður hafa viðbrögð sjútvrn. verið á þann veg að valda enn meiri vandræðum með þeirri fljótfærnislegu ákvörðun að draga svo mjög úr kvótanum eins og þeir gerðu nú fyrir skömmu. Þetta veldur enn þá fleiri sjávarútvegsfyrirtækjum vandræðum. Mörg þessara fyrirtækja hafa lagt sig fram um að veiða, voru reyndar búin að veiða allan kvótann eins og hann kemur fram þegar minnkunin kemur til, og þurfa nú að fara að kaupa sér kvóta. Það er náttúrlega alveg ófært ástand, herra forseti, að svo geti komið upp á að á miðri vertíð, á miðju kvótatímabili, þá standi menn uppi með það að vera búnir að veiða miklu meira en þeim var gefin heimild til.

Ég skora á hæstv. sjútvrh. að draga þessar tillögur sínar og reglugerð til baka og færa kvótann aftur í það horf sem hann var vegna þess að þá munum við a.m.k. hjálpa þeim sem eru og geta bjargað sér.