Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:57:18 (3646)

1999-02-16 13:57:18# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:57]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og leitt það mjög vel í ljós hversu alvarlegur vandi er hér á ferðinni. Hér er ekki bara um að ræða atvinnugrein sem skiptir mjög miklu máli fyrir þjóðfélagið í heild heldur er hér um að ræða atvinnugrein sem er grundvallaratvinnugrein í einstökum byggðarlögum og á einstökum landsvæðum. Og þegar við upplifum það að afli fer niður um helming eins og stefnir í með rækjuna núna á milli ára og þegar við upplifum það að á einstökum svæðum eins og við Húnaflóa stefnir í að rækjukvótinn sé að fara niður í kannski 25% af því sem hann hefur stundum verið þá sjá allir heilvita menn að það stefnir í mjög mikinn vanda.

Þá hljótum við að velta fyrir okkur eftirfarandi spurningu: Hvernig getum við brugðist við? Ég benti á það í ræðu minni áðan að við höfum til staðar úrræði í gildandi lögum um stjórn fiskveiða sem gefa okkur færi á því að létta undir með þessum svæðum. Nákvæmlega eins og við gerðum á sínum tíma þegar tekin var ákvörðun um að færa niður aflaheimildir í þorski mjög verulega þá var tekin um það pólitísk ákvörðun og þetta ákvæði leitt í lög um að létta undir með þeim útgerðum sem yrðu fyrir mestri skerðingu því annars væri hrein vá fram undan sem gæti haft alvarleg áhrif til lengri tíma.

Þó að þorskveiðiútgerðirnar hafi vissulega orðið fyrir mjög miklum skelli vegna minnkandi heimilda þá linaði þetta höggið. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra enn á ný til þess að skoða þetta mál. Ég fagna því í sjálfu sér að hæstv. ráðherra taldi ekki útilokað að gera þetta á næsta fiskveiðiári, en tel hins vegar að mikilvægt sé að menn skoði þetta sérstaklega fyrir þetta fiskveiðiár líka vegna þess að vandinn er til staðar. Vandinn er þegar brostinn á og ég fullyrði að um er að ræða svo staðbundinn vanda og sérstakan að við hljótum að horfa á það mál alveg sérstaklega.

Síðan vil ég vekja athygli á sem hefur komið fram í þessari umræðu að í raun og veru hefur þessi ákvörðun um að færa niður heildaraflann í rækju um 1/3 engin áhrif á heildarveiðina í rækju. Þetta segir okkur það að þessi ákvörðun hefur því miður fyrst og fremst þau áhrif að færa til verðmæti milli útgerða en hefur ekki áhrif á hinn líffræðilega þátt sem henni var þó stefnt að, að draga úr heildarveiði, heildarafla á rækju, því það er ljóst miðað við aflabrögðin eins og þau eru núna að menn munu ekki ná heildarkvótanum.