Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 14:16:57 (3655)

1999-02-16 14:16:57# 123. lþ. 66.8 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EgJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið ágreiningsefni af minni hálfu að atkvæðisrétt til alþingiskosninga þurfi að jafna. Sú leið sem valin var, þ.e. að stækka og afskræma kjördæmin með þeim hætti sem hér er lagt til er hins vegar ósamrýmanlegt skoðunum mínum á skipan kjördæma.

Til undirbúnings þessara verka voru valdir þingmenn sem eiga sín pólitísku viðhorf og hagsmuni í þéttbýlinu. Viðhorf hinna dreifðu og fámennu byggða hafa því einskis mátt sín við undirbúning þessa máls.

Tillögur þingnefndarinnar til breytinga á málinu eru sýndarmennska. Vinnsla málsins byggist á pólitískri hagsmunagæslu milli stjórnmálaflokkanna. Þessa geldur fólkið í hinum dreifðari byggðum. Ég er andvígur þessari skipan mála. Þess vegna segi ég nei við 1. gr. frv. en sit hjá við afgreiðslu málsins að öðru leyti.