Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 14:18:25 (3656)

1999-02-16 14:18:25# 123. lþ. 66.8 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég er ósammála þeirri grundvallarbreytingu sem lögð er til á stjórnarskipunarlögum. Fyrst lagt er til á annað borð að fækka kjördæmum og stækka þau á landsbyggðinni hefði þurft að stíga róttæk skref til að tryggja pólitískt jafnræði með landsmönnum. Ég hef lýst mig fylgjandi nýju stjórnsýslustigi fyrir einstaka landshluta jafnframt því sem landið yrði gert að einu kjördæmi.

Þá tel ég fráleitt að gera Reykjavík að tveimur kjördæmum eins og lagt hefur verið til og tel að það yrði skref aftur á bak en ekki fram á við. En alvarlegast í lýðræðislegu tilliti er að setja þröskuld fyrir úthlutun jöfnunarþingsæta upp á 5% en það getur þýtt að atkvæði 9.500 kjósenda nýtist ekki og pólitískur vilji þeirra virtur að vettugi. Í samræmi við þessa afstöðu mun ég greiða atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu.