Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 14:21:30 (3659)

1999-02-16 14:21:30# 123. lþ. 66.8 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við 1. og 2. umr. þessa máls gerði ég ítarlega grein fyrir skoðunum mínum. Niðurstaða mín er sú að verið sé að stíga afar slæmt skref. Auðvelt hefði verið að fara aðrar leiðir sem í senn hefðu tryggt bærilega sátt en það hefði líka verið hægt að verja í meginatriðum þau kjördæmamörk sem við lýði hafa verið í 40 ár og hafa gefist vel.

Það fyrirkomulag sem liggur til grundvallar frv. leiðir hins vegar til þess að óhjákvæmilegt er að breyta kjördæmamörkum m.a. með skiptingu Reykjavíkur. Breyting kjördæmamarka er þess vegna afleiðing þess að setja sér það markmið að atkvæðamisvægi fari ekki fram ú 1:2. Þær breytingar sem nú er verið að leiða í lög munu rýra hina pólitísku stöðu landsbyggðarinnar í heild og leiða til a.m.k. þriðjungs fækkunar þingmanna Vesturl., Vestf. og Norðurl. v. Ég spái því að við eigum eftir að mæta margs konar erfiðleikum vegna þeirrar ákvörðunar sem nú er að bresta á og því er ég andvígur þessu frv.