Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:05:50 (3673)

1999-02-16 15:05:50# 123. lþ. 66.38 fundur 266. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Bara örstutt varðandi þá ágætu þáltill. sem hér er til umræðu um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég vil leggja áherslu á hvað það er mikilvægt að vinna nefndar sem þessarar fari í gang. Eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur rakið hafa þessi mál verið ítrekað til umræðu á þessu kjörtímabili að frumkvæði jafnaðarmanna. Þingmál, sem ég er 1. flm. að og hv. þm. Össur Skarphéðinsson er meðflm. að, um bætta réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína, hefur verið tvívegis til umræðu og var vísað til ríkisstjórnarinnar fyrir u.þ.b. ári.

Við vonuðumst til þess að það skilaði einhverju, að vinna væri í gangi til þess að tryggja þann rétt sem börn eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til umgengni við báða foreldra sína. Við lögðum til ýmsar leiðir til að bæta stöðu barna til þess að þau fengju þennan umgengnisrétt sinn. Ekki hef ég orðið vör við, herra forseti, að nokkuð hafi komið út úr þeirri vinnu. Ég veit reyndar að það er ýmis vinna í gangi í dómsmrn. En þarna er mjög brýnt mál á ferðinni, það eru mörg börn sem líða, það eru margar fjölskyldur sem líða vegna þess að ekki eru tryggð réttindi í íslenskum lögum sem við höfum gengist undir með alþjóðasáttmála eins og þeim sem er til umræðu, þ.e. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég vil bara ítreka að farið verði í vinnuna. Það er ekki bara umgengnisréttur barna sem þarf að tryggja, það eru forsjármálin, það eru ýmis heilbrigðismál. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist á barna- og unglingageðdeildina þar sem þyrfti vissulega að huga að málum o.s.frv.

Herra forseti. Ég ætla að verða við því sem hæstv. forseti bað um í upphafi að lengja ekki umræðuna en ítreka enn einu sinni hversu mikilvægt og stórt mál þetta er fyrir öll börn hér á landi.