Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:08:31 (3674)

1999-02-16 15:08:31# 123. lþ. 66.38 fundur 266. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins í örfáum orðum taka undir efni þessarar tillögu. Ég held að það sé mjög brýnt og eitt af því sem þarf að gera með reglulegu millibili að skoða lagalega og félagslega stöðu barna í hverju einasta samfélagi. Við erum að ganga í gegnum miklar þjóðfélagsbreytingar og aðstæður barna breytast mjög hratt. Ég er ansi hrædd um að þeir séu margir Íslendingarnir sem hafa ekki gert sér grein fyrir því hversu miklar breytingar börn hafa verið að upplifa í fjölskyldulífi sínu, í skólum landsins og í öllu því umhverfi sem þau búa við.

Ég rifja upp í þessu sambandi að nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur kannað framkvæmd barnasáttmálans, gerði nokkrar athugasemdir hvað Íslendinga varðar og vakti alveg sérstaklega athygli á stöðu barna einstæðra foreldra og þeim aðstæðum sem þau búa við. Rétt er að minna á í þessu samhengi að það er mjög margt sem þarf að skoða og það er aðalsmerki þeirra þjóðfélaga sem vilja kenna sig við lýðræði og skapa gott samfélag að búa vel að börnum. Margt hefur komið upp á yfirborðið á undanförnum árum sem aldrei var minnst á áður eins og einelti og ofbeldi gegn börnum, kynferðislega misnotkun o.fl. Allt þetta þarf að kortleggja og að fylgjast með jafnt og þétt.

Því tek ég undir efni tillögunnar og tel brýnt að nefnd á við þessa taki til starfa sem allra fyrst.