Gjaldþrotaskipti

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:15:23 (3678)

1999-02-16 15:15:23# 123. lþ. 66.39 fundur 96. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér er á ferðinni nokkuð stórt mál sem snertir greiðsluvanda skuldugra heimila og ef gera ætti þessu máli ítarleg skil tæki það lengri tíma en hæstv. forseti fer fram á við okkur framsögumenn mála í dag. Með tilliti til þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál er á dagskrá skal ég reyna að verða við ósk hæstv. forseta.

Um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti sem ég flyt ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, Svavari Gestssyni, Margréti Frímannsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni, Bryndísi Hlöðversdóttur, Svanfríði Jónasdóttur, Ögmundi Jónassyni, Kristínu Ástgeirsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur.

Í frv. er um að ræða greiðsluaðlögunarleið sem eykur líkur á því að lánardrottnar fái skuld sína að öllu eða einhverju leyti greidda fremur en að tefla kröfunni í tvísýnu í gjaldþrotameðferð þar sem skuldir gjaldanda eru langt umfram eignir. Þetta frv. gefur því fólki nýja möguleika til að vinna sig út úr fjárhagserfiðleikum án þess að missa eigur sínar og húsnæði í gjaldþrot og þannig er að hægt að takast á við fjárhagsörðugleika með nýrri og uppbyggjandi sýn úr annars vonlausri stöðu.

Það frv. og þær leiðir sem hér eru lagðar til draga úr kostnaðarsömum innheimtuaðgerðum lánardrottna sem skila oft litlum árangri. Greiðsluaðlögun dregur líka úr kostnaði sem fellur oft á samfélagið þegar fjölskyldur komast í greiðsluþrot en kostnaður vegna nauðungarsölu og gjaldþrota fellur í slíkum tilvikum oft á hið opinbera. Upplausn fjölskyldna og félagsleg vandamál fylgja í kjölfarið sem eru bæði einstaklingum, fjölskyldum þeirra og samfélaginu í heild dýr. Hér er því verið að opna fyrir möguleika sem skuldari, lánardrottinn og samfélagið í heild geta fremur haft ávinnig af en með þeim úrræðum sem nú bjóðast.

Greiðsluvandi heimilanna hefur oft og iðulega verið á dagskrá á hinu háa Alþingi og lagðar hafa verið fram ýmsar tillögur og leiðir til úrbóta í því efni. Sú leið sem ég tala fyrir um greiðsluaðlögun var t.d. mjög mikið rædd í þingsölum á síðasta kjörtímabili af hv. framsóknarmönnum sem töldu þessa leið vera mjög nauðsynlegt að fara strax í vegna greiðsluvanda heimilanna. Nú þegar þeir hafa verið í ríkisstjórn nær heilt kjörtímabil hefur ekkert bólað á frv. um greiðsluaðlögun en í stað þess lögðu þeir fram úrræði fyrir sennilega tveimur árum sem átti að koma í staðinn fyrir frv. um greiðsluaðlögun sem ekki síst hæstv. núverandi viðskrh., þá þingmaður, mælti sérstaklega fyrir.

Leiðin sem hv. framsóknarmenn og hæstv. ríkisstjórn hafa lagt til á þessu kjörtímabili hefur satt að segja, herra forseti, skilað afar litlu fyrir skuldug heimili og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur á þessu kjörtímabili einmitt spurst fyrir um þau úrræði sem framsóknarmenn töldu að mundi koma í staðinn fyrir greiðsluaðlögun en um var að ræða tvær ef ekki þrjár leiðir. Það var möguleiki á að fella niður tekjuskatt og eignarskatt hjá einstaklingum undir sérstökum kringumstæðum, lög um réttaraðstoð einstaklinga, sem leita nauðasamninga, svo þessi tvö úrræði séu nefnd. Segja má að aðeins örfáir einstaklingar, innan við 20, hafi nýtt sér heimildina um nauðasamninga og þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurðist fyrir um það vorið 1997 hversu margir hefðu notið úrræðisins um niðurfellingu á tekju- og eignarskatti vegna sérstakra skilyrða, þá hafði enginn getað nýtt sér það úrræði. Þessi saga segir okkur því, herra forseti, að nú í lok þessa kjörtímabils stöndum við frammi fyrir því, þjóðin og þeir einstaklingar og heimili, sem biðu eftir því að úrlausn sem framsóknarmenn tefldu fram mundi leysa greiðsluvanda þeirra, hafa öll verið svikin. Því er það svo, herra forseti, að það mál sem ég mæli fyrir ætti að hafa meirihlutastuðning á Alþingi, vegna þess að um er að ræða nánast sömu tillögu og hv. framsóknarmenn lögðu fram á síðasta kjörtímabili og öll stjórnarandstaðan stendur að þessari nýju leið til úrbóta fyrir skuldug heimili.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan ætla ég bara í örstuttu máli, þó að þetta stóra mál gefi tilefni til ítarlegrar umfjöllunar, að fara yfir helstu efnisatriði þessa frv.

Í fyrsta lagi má draga saman helstu efnisatriði með eftirfarandi hætti:

Um er að ræða nýtt úrræði fyrir einstaklinga utan atvinnurekstrar sem komnir eru í algjört og viðvarandi greiðsluþrot og ekkert blasir við að óbreyttu annað en gjaldþrot.

Greiðsluaðlögun felur í sér gagngera endurskipulagningu á fjármálum skuldara, en á greiðsluaðlögunartímabilinu, sem staðið getur í átta ár, er gerð áætlun sem honum er skylt að standa við gagnvart lánardrottnum.

Brýnasti framfærslukostnaður skuldara er metinn og gert ráð fyrir að á greiðsluaðlögunartímabilinu haldi hann eftir því sem sanngjarnt telst til nauðsynlegrar framfærslu.

Greiðsluaðlögun felur í sér að greiðslu skulda eða hluta þeirra er frestað og að kröfuhafar gefa eftir vexti, kostnað eða hluta skuldar annaðhvort strax eða að loknu greiðsluaðlögunartímabili.

Greiðsluaðlögun getur verið tvenns konar. Annars vegar getur hún verið frjáls greiðsluaðlögun sem byggist á samkomulagi við lánardrottna um frestun eða niðurfellingu skulda og kostnaðar en héraðsdómari úrskurðar um slíkt samkomulag, en hins vegar þvinguð greiðsluaðlögun sem héraðsdómari getur úrskurðað um þótt ekki náist samkomulag við lánardrottna.

Skuldara er skylt að ráða sér aðstoðarmann sem fer með málið fyrir hönd skuldara; lánardrottnar geta t.d. ekki krafist kyrrsetningar, fjárnáms, gjaldþrotaskipta eða annarra fullnustugerða á greiðsluaðlögunartímabilinu.

Ekki er unnt að ganga að ábyrgðarmönnum skuldara á meðan greiðsluaðlögun stendur.

Óheimilt er að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar nema einu sinni.

Ef um er að ræða ófyrirséða atburði eins og slys eða sjúkdóma sem leiða til tímabundinn ar örorku skuldara eða fjarveru frá vinnu eftir að greiðsluaðlögunartímabil hefst er unnt að framlengja það í fjögur ár.

Gert er ráð fyrir að þóknun aðstoðarmanns skuldara verði greidd úr ríkissjóði samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.

Herra forseti. Eins og hér hefur verið lýst mundi þessi leið opna mörgu fólki nýja möguleika sem er nú í vonlausri stöðu og sér ekkert annað fram undan en gjaldþrot og missi íbúðarhúsnæðis.

Þetta mál er nokkuð þekkt á hinu háa Alþingi þannig að ef vilji væri fyrir hendi væri unnt að afgreiða þetta mál nú fyrir þinglok og þar með gæti þingið stuðlað að úrræðum fyrir fjölda heimila sem nú eru í mjög slæmri skuldastöðu.

Nú kynni einhver að segja að ekki væri eins mikil þörf á þessu úrræði eins og var á síðasta kjörtímabili vegna þess að það hefur ríkt góðæri í landinu eins og hæstv. forsrh. er nokkuð tíðrætt um, en við höfum það fyrir okkur, herra forseti, að staða ýmissa hópa er mjög slæm þrátt fyrir góðærið og erum við þar ekki síst að tala um hópa barnafjölskyldna, einstæðra foreldra, öryrkja, aldraðra og fleiri. Þegar ég ræði stöðu barnafjölskyldna hygg ég að einmitt þessi leið mundi skila sér mjög vel fyrir ýmsar fjölskyldur sem eru í slæmri skuldastöðu.

Þrátt fyrir góðærið, herra forseti, er athyglisvert og vil ég nefna það í lok máls míns að skuldir heimilanna hafa aukist verulega á þessu kjörtímabili þrátt fyrir góðærið. Í september sl. kom einmitt fram að skuldir heimilanna hafa aukist um 43 milljarða á einu ári og man ég eftir að hafa séð tölu sem var milli 70 og 80 milljarðar á tveimur síðustu árum eða 24 mánaða tíma. Það er gífurlega mikil aukning þegar skuldir heimilanna til opinberra lánastofnana, lífeyrissjóða og bankakerfisins í heild nema 407 milljörðum kr. Það er vissulega til umhugsunar, herra forseti, að heimilin hafi safnað svo miklum skuldum í þessu góðæri.

Það skulu vera lokaorð mín, herra forseti, að þetta mál hefur fengið ítarlega umfjöllun á hv. Alþingi, þannig að ef vilji er fyrir hendi ætti að vera hægt að afgreiða það nú fyrir þinglok og skora ég á hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar að afgreiða það á þeim tíma sem eftir er þannig að hv. þm. gefist tækifæri til að taka afstöðu til þessa frv. og ég er sannfærð um að það er meiri hluti fyrir því á hv. Alþingi.

Ég óska eftir því, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. Ég man ekki í augnablikinu þegar ég stend hér, hvaða nefnd hefur fengið málið til umsagnar en þetta er í þriðja skipti sem ég mæli fyrir þessu frv. og legg til að frv. fari til sömu nefndar og áður sem ég hygg að hafi verið hv. félmn.