Gjaldþrotaskipti

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:26:39 (3679)

1999-02-16 15:26:39# 123. lþ. 66.39 fundur 96. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá framsögumanni lofaði ríkisstjórnin öðrum úrræðum en greiðsluaðlögun til að ná sömu markmiðum eins og það var orðað, þ.e. hinni svokölluðu lagaþrennu. Heimild til niðurfellingar skattskulda, réttaraðstoð við nauðasamninga og heimild til niðurfellingar meðlagsskulda ásamt ráðgjafarþjónustu fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum. Við skulum skoða þessi úrræði nánar.

Ráðgjafarþjónusta er veitt og það er auðvitað góðra gjalda vert. Það hefur haft mikið að segja fyrir fólk að fá hjálp til að skipuleggja fjármál sín. Það hefur reynst mörgum erfitt. Ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar ríkisins vann frumherjastarf á þessum vettvangi sem seint verður lofað nógsamlega og Ráðgjafarstofu heimilanna er ætlað að fylgja því eftir. En þetta er ekki úrræði fyrir þá sem ná alls ekki endum saman. Hér er t.d. ekki að finna heimild til niðurfellingar á skuldum að hluta til meðan fjárhagurinn er endurskipulagður með sölu eigna eftir atvikum. Nei, fjármálaþjónustan er góð fyrir alla sem vilja taka á sínum málum. Þessi þjónusta hefur þó, að ég best veit, ekkert umfram þá þjónustu sem bankarnir veita í dag. Þannig tekur þjónustan t.d. ekki að sér að semja um greiðslu skulda fyrir skuldarann eða niðurfellingu á t.d. ábyrgðarskuldbindingum. Það vantar úrræði fyrir fólk til að forða gjaldþroti en auðvitað undir ströngum skilyrðum.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur leitaði ég svara hjá fjmrh. um hversu margir hefðu óskað heimildar til niðurfellingar á sköttum samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem var eitt af þeim úrræðum sem ríkisstjórnin kom á. Í svarinu kom fram að mjög fáir hefðu uppfyllt skilyrði laga til niðurfellingar á skattskuldum og hafði t.d. enginn fengið heimild, sem þess óskaði, frá 1. maí 1997 til 31. desember sama ár. Þegar fjmrh. var spurður um það hvort hann mundi beita sér fyrir breytingu á lögum sem miðaði að því að gera úrræðið virkara fyrir fólk í fjárhagsörðugleikum, svaraði hann því til að ekki stæði til að rýmka heimildina. Í svarinu kemur fram að opnuð hafi verið leið til að veita þeim einstaklingum sem leita nauðasamninga ókeypis réttaraðstoð. Það hefur hins vegar sýnt sig að heimild til nauðasamninga, sem hefur hentað mörgum fyrirtækjum vel, hefur ekki reynst einstaklingum í greiðsluerfiðleikum á sama hátt. Þannig kom fram í svari við fyrirspurn minni í þinginu að aðeins tveir einstaklingar hefðu leitað eftir slíkri heimild á tímabilinu 1990 til 1. júlí 1992 og hefði annarri beiðninni verið synjað. Ég vek athygli á því að gjaldþrot voru mörg á þessum árum og samkvæmt upplýsingum frá héraðsdómstólum óskuðu aðeins 16 einstaklingar eftir heimild til að leita nauðasamninga á tímabilinu 1. júlí 1992 til 1995. Frá 1. júlí 1996 til loka ársins 1997 höfðu 38 einstaklingar beðið um aðstoð til að leita nauðasamninga og var orðið við beiðninni í aðeins 22 tilvikum.

Fjárhagsaðstoð til að leita nauðasamninga hefur gert það að verkum að úrræðið verði aðgengilegra fyrir einstaklinga en það eru þó tiltölulega fáar umsóknir þrátt fyrir brýna þörf. Ef til vill er það því að kenna, herra forseti, að þetta hefur ekki verið auglýst til upplýsingar fyrir almenning og lítið fjallað um þetta úrræði, og það er hreinlega ókunnugt þeim sem lenda í erfiðleikum. Það var t.d. ekki minnst á þessa leið á ráðstefnu um þungar skuldir heimilanna sem haldin var af Fjármálaráðgjöfinni og bönkunum fyrir rúmlega tveimur árum.

Heimild til niðurfellingar á meðlagsskuldum hefur hins vegar reynst eitt virkasta úrræði ríkisstjórnarinnar af þeim sem áttu að koma í stað greiðsluaðlögunar. Þeirrar heimildar hafa margir leitað og margar meðlagsskuldir verið felldar niður. Í heild eru úrræðin sem ríkisstjórnin setti á í stað laga um greiðsluaðlögun einber sýndarmennska, herra forseti.