Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:36:00 (3682)

1999-02-16 15:36:00# 123. lþ. 66.41 fundur 83. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þingmannamál skuli loksins komast hér á dagskrá og get fyrir mitt leyti lýst yfir stuðningi við fyrirkomulagið sem hér er reynt að viðhafa vegna tímaleysis, að takmarka umræður eða að beina þeim tilmælum til manna. Ég hlýt hins vegar að lýsa megnri óánægju með að hæstv. ríkisstjórn, ofan á frammistöðuna við atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrv. í dag þar sem sex af tíu ráðherrum ríkisstjórnarinnar voru fjarverandi, skuli síðan heiðra framhald fundarhalda hér í dag með algjörri fjarveru sinni. Þar með sýna þeir þeim málefnum sem hér eru á ferðinni lítilsvirðingu, þ.e. hvernig hæstv. ráðherrar akta þingskyldu sína. Ég mótmæli þessu, herra forseti. Ég vona að hæstv. forseti heyri orð mín, hafi það eitthvað upp á sig.

Ég ætla að mæla, herra forseti, fyrir till. til þál. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að viðskiptabannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Einnig verði mótuð sú stefna að viðskiptahindrunum verði aldrei beitt við þær aðstæður að almenningur, ekki síst börn, líði beinan skort af þeim sökum.``

Ég hygg, herra forseti, að ekki þurfi að fjölyrða um tilefni þessarar tillögu. Svo þekkt ætti það að vera þeim sem fylgjast með alþjóðastjórnmálum hvernig vaxandi andúð hefur grafið um sig á því ástandi sem er í Írak. Raunar fækkar jafn og þétt í stuðningsmannaliði þeirra sem enn halda uppi vörnum fyrir þetta viðskiptabann og reyndar aðeins stjórnvöld í Bandaríkjunum, með fylgispekt Breta, sem þæfa þarna við en halda Sameinuðu þjóðunum að öðru leyti í gíslingu í þessu máli. Ljóst er að enginn stuðningur er við að Sameinuðu þjóðirnar verði áfram notaðar sem skálkaskjól til að viðhalda áfram því ástandi sem þarna er. Afleiðingar þess eru gífurlegt mannfall og nánast ólýsanlegar hörmungar. Og það vegna viðskiptabanns sem að nafninu til er á ábyrgð Sameinuðu þjóðanna eða öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem nýlega hafa verið staðfestar, deyja nú í Írak milli fimm og sex þúsund börn í mánuði hverjum vegna vannæringar, skorts á lyfjum og hreinu drykkjarvatni. Heilir árgangar írakskra barna eru vannærðir, hafa búið við vaxtar- og þroskaskerðingu á undaförnum árum þannig að þau munu aldrei bíða þess bætur, jafnvel þó að úr rætist, þ.e. þau þeirra sem kunna að lifa af.

Ég vísa til rökstuðnings, herra forseti, sem fram kemur í greinargerð með tillögunni. Það er farið yfir sögulega þætti málsins. Ég hygg að við flutningsmenn séum ekki andvígir því að aðgerðir af viðskiptalegum toga geti hjálpað við lausn deilumála á alþjóðavettvangi. Við teljum þó að þær aðgerðir verði að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði. Þær geti aldrei orðið skálkaskjól fyrir einangrun heillar þjóðar og það að svelta hana inni, eins og nú er að gerast í Írak.

Ég ætla, herra forseti, að vitna í tvennt máli mínu til stuðnings. Til að fá menn til að reyna að hugleiða við hvaða aðstæður írakska þjóðin býr og hefur búið sl. átta ár. Írakar áttu besta heilbrigðiskerfi Miðausturlanda og voru öfundaðir af heilbrigðiskerfi sínu þegar það var og hét. Sama átti við um þróun t.d. í írökskum iðnaði og írökskum landbúnaði. Á sínum tíma voru Írakar langfremstir arabaþjóða á þessum sviðum. Þeim hafði t.d. að mestu tekist að útrýma mörgum skæðum búfjársjúkdómum sem herjuðu á landbúnað í nálægum ríkjum.

Hvernig skyldi ástandið vera í þeim efnum í dag? Talið er að gin- og klaufaveiki hafi á skömmum tíma drepið milli 50 og 100 þúsund nautgripi og kindur í Írak. Talið er að yfir ein milljón gripa séu þegar sýkt af gin- og klaufaveiki. Þetta er í landi sem nánast einu ríkja í Miðausturlöndum tókst að eyða þessum sjúkdómum með markvissum og skipulögðum aðgerðum á sínum tíma.

Hver er ástæða þess að svo er komið, herra forseti? Jú, hún er einkum sú að bóluefnaverksmiðja Íraka, þeirra ,,Keldur``, var eyðilögð vegna þess að að mati bandarískra sérfræðinga var talið mögulegt að nota aðstöðuna í bóluefnaverksmiðjunni til að framleiða eiturefni. Eina bóluefnaverksmiðja landsins var eyðilögð og síðan hefur ekki verið hægt að framleiða bóluefni til varnar búfjársjúkdómum. Afleiðingin er sú að m.a. gin- og klaufaveiki eru að sýkja svo til allan búpening landsins. Það bætist við aðrar hörmungar og skort á matvælum sem fyrir er, að landbúnaðurinn er að leggjast í rúst.

Herra forseti. Svo undarlega vill til að á Íslandi eru enn á nokkrir stuðningsmenn og kannski síðustu stuðningsmenn stefnu Bandaríkjastjórnar og taglhnýtinga þeirra, Breta, í þessu máli. Það hefur vakið athygli mína að t.d. utanrrh. Íslands hefur gengið fram fyrir skjöldu í að réttlæta þetta ástand en ekki lagst á sveif með utanríkisráðherrum flestra annarra Evrópuríkja sem reynt hafa að byggja upp stuðning við aðrar úrlausnir. Það liggur orðið fyrir að í Evrópu eru Bretar einir um að styðja styðja áframhaldandi viðskiptaþvinganir á sama grundvelli og verið hefur.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í einn af æðstu yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna, Denis Halliday, sem var fyrir nokkrum mánuðum einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna og yfirmaður mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Írak. Írinn Denis Halliday var einn af hæst settu embættismönnum Sameinuðu þjóðanna, sérstakur trúnaðarmaður aðalritara Sameinuðu þjóðanna, bar aðstoðaraðalritaratitil og hafði þjónað Sameinuðu þjóðunum í 34 ár. Hann var einn virtasti embættismaður á æðsta stigi innan Sameinuðu þjóðanna og virtur borgari.

Hann kom til Íraks til þess að hafa yfirumsjón með mannúðaráætlun Sameinuðu þjóðanna og hafa eftirlit með áætluninni ,,Olía fyrir matvæli og lyf``. Hvernig lítur hann á málin, herra forseti. Ég vitna í ræðu sem hann hélt í Washington-háskóla fyrir skömmu, hér í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:

,,Ég fór til Íraks í september 1997 til að hafa yfirumsjón með áætlun Sameinuðu þjóðanna um ,,Olíu fyrir matvæli``. Ég komst fljótlega að raun um að þessi áætlun var einungis plástur á refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna, aðgerðir sem í raun voru að drepa fólk. Ég vildi ekki sjá grafið undan siðferðislegum styrk Sameinuðu þjóðanna og vera samsekur í slíku.

Ég komst á þá skoðun að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða og brot á mannréttindum. Ég sagði af mér eftir 13 mánuði.``

Í þessari ræðu rakti hann t.d. ástandið í Írak og hvernig það hefði verið allt frá Persaflóastríðinu. Hann sagði að til að skilja þá stöðu sem þjóðin væri í yrðu menn að hafa í huga hina algjöru eyðileggingu sem varð í Flóastríðinu. Þá var t.d. skolpkerfið í landinu, og sérstaklega í höfuðborginn Bagdad, eyðilagt. Vatnsveitan og vatnshreinsistöðvarnar voru eyðilagðar. Rafmagnskerfið var eyðilagt. Sjúkrahúsin voru að stórum hluta eyðilögð. Skólarnir voru að mestu eyðilagðir. Samgöngukerfið var lamað. Korngeymar og kornsíló landsins voru eyðilögð o.s.frv.

Með öðrum orðum voru nánast öll uppbygging og innviðir þróaðs samfélags eyðilögð. Það hefur verið orðað þannig að Írak hafi verið sprengt aftur á steinaldarstig. Þannig á sig komið fékk landið á sig algert viðskiptabann sem hefur varað síðan. Fyrir vikið, herra forseti, eru t.d. varahlutir til að gera við skemmdirnar ófáanlegir. Afleiðingin er sú að skólpið flæðir eftir götum borga í Írak, skólpveitan og dælukerfin eru ónýt. Það mengar vatnið og hefur valdið alvarlegum smitsjúkdómum, það hefur valdið stanslausum magaeitrunum, niðurgangi og því að taugaveiki og kólera hafa grasserað og svo mætti áfram telja. Raforkuframleiðsla í Írak er nú minni en 40% af því sem hún var fyrir Flóastríðið. Óhugnanleg þróun hefur orðið hvað varðar aukningu á ýmsum sjúkdómum eins og krabbameini, hvítblæði og fæðingum vanskapaðra barna. Það er m.a. talið rekja rót sína til notkunar herja Vesturlanda á úraníumvopnum í stríðinu.

Herra forseti. Ég leyfi mér að vitna í þessa ræðu í von um að kannski nái hún frekar eyrum manna. Ég vona að þau orð verði ekki afgreidd sem óraunsæ eða gamaldags hugmynd. Mér finnst nokkuð sérkennilegt að það skuli ekki hafa fengið meiri viðbrögð og leitt til meiri efasemda málsmetandi manna í vestrænum stjórnmálum þegar æðsti yfirmaður Sameinuðuðu þjóðanna, sem á að framkvæma stefnu Sameinuðu þjóðanna í landinu, virtur maður eins og Denis Halliday, bregst við og talar eins og hann gerir. Hann sagði undir lok ræðu sinnar í Washington-háskóla að hann væri að reyna að opna eyru almennings, ekki síst í Bandaríkjunum. Hann líkti ástandinu og framferði Bandaríkjamanna í Írak við Víetnam-stríðið. Hann sagði að eina von hans í málinu væri sú að takast mætti að byggja upp andstöðu á Vesturlöndum við framferði ráðamanna sem nægja mundi til að brjóta það á bak aftur að lokum eins og gerðist í Víetnam-stríðinu.

Ég er sannfærður um það, herra forseti, að framganga Vesturlanda í Írak, hversu djöfullegur sem Saddam Hussein er og verður metinn í sögunni, gagnvart óbreyttum almenningi og þær þjáningar sem viðskiptabannið hefur valdið, verða talinn síst skárri kafli í mannkynssögunni þegar frá líður. Þarna hafa gerst hlutir sem eru skelfilegir til að hugsa. Ég vona að þótt seint sé þá fari augu manna að opnast fyrir því að það er ekki hægt að réttlæta þetta ástand. Það verður að bregðast við því og má til sanns vegar færa, herra forseti, að sú tillaga sem hér er flutt sé allt of hógvær í ljósi alvöru málsins. Hún á sér nokkra sögu. Hún var fyrst flutt fyrir nokkuð mörgum árum. Þá var ástandið ekki orðið eins skelfilegt og það er nú, eða mönnum ekki eins vel ljóst. Hér er fyrst og fremst sett fram hógvær tillaga um að Íslendingar beiti sér fyrir því að þetta ástand verði tafarlaust tekið til endurskoðunar og stefnan til endurmats.

Ég leyfi mér svo að lokinni þessari umræðu, herra forseti, að leggja til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. utanrm.