Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:15:48 (3688)

1999-02-16 16:15:48# 123. lþ. 66.42 fundur 174. mál: #A stjórnarskipunarlög# (nytjastofnar í hafi) frv., Flm. GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir viðbrögðin. Sameign er í mínum huga mjög einfalt orð, það er það sem einhverjir eiga saman og í þessu tilfelli íslenska þjóðin. Íslenska þjóðin er fólkið sem býr í þessu landi eða hefur lögheimili á Íslandi. Það er ekki ríkið heldur fólkið sem býr hér eða hefur lögheimili hér. (PHB: Útlendingar líka?)

Menntun og mannauður er vissulega mjög mikilvæg auðlind. Það er erfitt að bera nákvæmlega saman hvort fiskarnir í sjónum séu mikilvægari en mannauðurinn. Þeir eru allt annars konar auðlind. Þetta er eitthvað sem við getum fjárfest í, mannauðurinn og menntunin, og ég tel það mjög mikilvægt líka. Kannski er það álitamál hvort sé mikilvægara, þ.e. ef við gætum aðeins haft annað en ekki hitt. En ég held a.m.k. efnahagslega, ef við miðum við útflutningstekjur okkar og annað slíkt, að þá hljóti fiskveiðiauðlindin að koma númer eitt.