Almannatryggingar

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:21:45 (3690)

1999-02-16 16:21:45# 123. lþ. 66.43 fundur 316. mál: #A almannatryggingar# (tryggingaráð) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:21]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil ítreka það í þessari umræðu hversu mikilvægt er að fulltrúar þessara stóru hópa viðskiptavina Tryggingastofnunar ríkisins fái að koma þar að sem þeirra málum er ráðið. En það er einmitt það sem lagt er til í þessu frv. til laga sem hv. þm. Ágúst Einarsson er 1. flm. að, og væri við hæfi í ár, á ári aldraðra, að frv. yrði lögfest.

Þess má geta að verkefni Tryggingastofnunar ríkisins, eins og kom fram í máli hv. 1. flm. þessa frv., eru lífeyristryggingarnar, sjúkratryggingarnar og slysatryggingarnar. Lífeyristryggingarnar snerta um 60 þúsund Íslendinga á hverju ári og aldraðir og öryrkjar eru mjög stór hluti þeirra sem hafa sína framfærslu eða a.m.k. hluta sinnar framfærslu frá Tryggingastofnun.

Þess má líka geta að þessir hópar koma einnig mjög að málum hvað varðar sjúkratryggingarnar sem nánast koma þó við hvern mann í landinu, því að eins og við vitum þá þarf fólk er það verður fullorðið frekar á sjúkratryggingunum að halda en þegar það er yngra. Það er mjög mikilvægt að tekið verði tillit til þessara hópa í tryggingaráði og að þeir eignist sína fulltrúa þar. Tryggingaráð tekur á mjög stórum málaflokkum og margt af því sem kemur fyrir tryggingaráð kemur kannski ekki til þessara hópa fyrr en seint og um síðir vegna þess að þar er verið að ákveða reglur, ákveða útfærslu á lögum sem ekki er endilega kynnt opinberlega eða leitað samráðs vegna. Tryggingaráð setur ákveðnar vinnureglur og mikilvægt er að þessir hópar eigi þar fulltrúa sem geta þá haft áhrif á það hvernig þessar reglur eru útfærðar. Það verður að segjast eins og er að þessar reglur geta haft mjög afgerandi áhrif á framfærslu þessara hópa, sérstaklega það sem snýr að lífeyristryggingunum og reyndar einnig að sjúkratryggingunum því að þær koma þarna einnig við sögu.

Þess vegna vil ég leggja áherslu á það, herra forseti, að þetta mál verði afgreitt úr heilbr.- og trn., vegna þess að sómi væri að því á ári aldraðra að fulltrúar eldri borgara og öryrkja eignuðust sína fulltrúa í tryggingaráði.