Aðgerðir til að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:26:04 (3691)

1999-02-16 16:26:04# 123. lþ. 66.47 fundur 495. mál: #A aðgerðir til að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:26]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs. Þetta mál hefur víða verið til umfjöllunar erlendis og í greinargerð er minnst bæði á Norðurlöndin og ekki síður Evrópusambandið sem bæði í félagsmálasáttmála sínum og eins í jafnréttisáætlun sinni hefur nefnt þetta atriði sérstaklega sem æskilegt markmið og bent á aðgerðir til þess að aðstoða borgarana innan Evrópusambandsins í þessum efnum.

Í tillögunni er bent á allmargar aðgerðir sem mega verða til þess að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs. Það er kannski nauðsynlegt að skýra betur hvað átt er við með þessu. Hugsunin er sú að sjá til þess að fólk geti sinnt fjölskyldu sinni, það hafi tíma fyrir sitt einkalíf, hvort sem fólk er með börn á framfæri eða ekki, að frítími sé tryggður o.s.frv., því að það þekkja margir að oft gengur erfiðlega að samræma atvinnulífið og einkalífið og mjög oft tekur vinnumarkaðurinn lítið tillit til aðstæðna fólks, svo sem þegar veikindi barna eiga í hlut eða að skólakerfið er ekki í samræmi við vinnutíma foreldra o.s.frv.

Hér er bent á allnokkur atriði sem vert er að skoða í þessu samhengi en auðvitað er þessi listi ekki tæmandi. Hér er farin sú leið að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að setja fram tillögur um aðgerðir sem auðveldi fólki að samræma betur en nú atvinnulíf og einkalíf. Þessi leið er valin vegna þess að hér er um það að ræða að ríkið þarf að grípa til aðgerða, sveitarfélögin þurfa að grípa til aðgerða og ekki síst þurfa aðilar vinnumarkaðarins að grípa til ákveðinna aðgerða.

Það er vægast sagt löngu orðið tímabært að aðilar vinnumarkaðarins opni augu sín. Í því sambandi vil ég vil geta þess að Alþýðusamband Íslands hefur bent rækilega á þetta samhengi og kynnt sem hluta af sinni fjölskyldustefnu, þ.e. að bæta tengsl atvinnulífsins og einkalífs. Evrópusambandið hefur beint tilmælum til aðila vinnumarkaðarins um að þeir semji um atriði af þessu tagi og ekki síst að þeir semji um endurmenntun sem er þáttur sem snertir þetta mál og er sífellt að verða brýnni eftir því sem þjóðfélagið breytist.

Í rökstuðningi þessarar tillögu er komið inn á allmörg atriði. Fyrst er greint frá þeirri umræðu sem á sér stað um þetta efni, þ.e. það sem ég hef rekist á. Hún kann að vera til staðar miklu víðar. Vakin er athygli á þeim miklu breytingum sem orðið hafa á fjölskylduháttum og ekki síst þeim upplýsingum sem nýjastar eru um samsetningu fjölskyldna hér á landi og leiða í ljós að fjölskyldur með fleiri en einum fullorðnum eða börnum yfir 16 ára aldri eru algengasta tegund fjölskyldna. Það er vikið að vinnutíma og því hversu brýnt er að tryggja að fólk geti fengið nægilega hvíld, hæfilega hreyfingu og lifað góðu félagslífi. Þá er vikið að launamálum og loks að því hlutverki ríkisins og ríkisvaldsins að afla upplýsinga um samfélagsbreytingar sem megi verða til þess að þeir sem fást við daglegt líf fólks eða þar sem fólk er við nám og vinnu, geti áttað sig á breytingum. Síðast en ekki síst er svo hlutverk ríkisvaldsins að tryggja jafnrétti og þá ekki síst jafnrétti og jafna stöðu kynjanna.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, hæstv. forseti. Greinargerðin skýrir sig sjálf. Eflaust hefði mátt tíunda fleira sem má verða til þess að bæta þessi tengsl. En ég vil með tillögunni vekja sérstaka athygli á þessu samhengi sem ég held að okkar samfélag þurfi mjög að taka á til þess, eins og segir í greinargerðinni, að við höldum inn í 21. öldina sem hluti af samfélagi sem virðir jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna, samfélagi sem telur sitt æðsta hlutverk að tryggja börnum gott og gjöfult líf.