Aðgerðir til að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:31:29 (3692)

1999-02-16 16:31:29# 123. lþ. 66.47 fundur 495. mál: #A aðgerðir til að bæta tengsl atvinnulífs og einkalífs# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir þetta framlag sem er mjög gott svo sem hennar er von og vísa. Hér er tekið á máli sem ég held að sé mjög mikilvægt. Þó að ég sé kannski ekki endilega hrifinn af því að frumkvæðið komi að ofan, frá löggjafarsamkundunni, þá kann það að vera nauðsynlegt. Ég minni á að staðan er þannig í dag varðandi barnaheimili og grunnskóla að þar dettur mönnum í hug að loka þessum stofnunum einn dag öðru hverju vegna starfsdaga kennara eða leikskólastarfsmanna og setja í rauninni öll heimili viðkomandi barna í uppnám. Þetta eru öll tengsl hinnar opinberu þjónustu við neytendur.

Ég hygg að við þurfum að ganga öllu lengra. Ég er með hugmyndir um að ganga lengra en hér er lagt til. Þar á meðal er að öryrkjar og ellilífeyrisþegar, þeir sem þess óska, geti haldið áfram að vinna eða verið áfram í vinnu en örorkulífeyrir og ellilífeyrir verði greiddir til fyrirtækjanna sem geta þá ráðið fólkið á sömu laun og það hafði áður. Þannig yrði launakostnaður fyrirtækjanna vegna þessara starfsmanna miklu lægri. Þetta er ein hugmynd sem ég vildi bæta við þarna.

Einnig að stuðlað verði að því að foreldrar ungra barna vinni á vöktum þannig að börnin þurfi ekki að fara á barnaheimili og þetta er svo sem lagt til hér líka. Ég hygg að atvinnulífið sé að verða miklu sveigjanlegra en það var fyrir nokkrum árum. Fyrir nokkrum árum var það ákaflega stíft. Menn unnu bara frá níu til fimm á öllum skrifstofum og ekki var um annað að ræða. Núna er komin tölvuvinnsla, fjarvinnsla og miklir möguleikar til að skipuleggja starfið mun sveigjanlegra.

Þessari tillögu verður væntanlega vísað til félmn. þar sem ég á sæti og þegar hún kemur þangað vildi ég gjarnan skoða það að hún yrði útfærð enn frekar í þá veru að atvinnulífið og einkalífið geti unnið betur saman. Það er ekki tilgangur fólks að vinna til þess að vinna heldur til að skapa eitthvað og ef hægt er að gera það í betra samræmi við fjölskylduna ættu menn endilega að stefna að því.