Kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 16:38:16 (3696)

1999-02-16 16:38:16# 123. lþ. 66.48 fundur 327. mál: #A kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi# þál., Flm. KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[16:38]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um kortlagningu ósnortinna víðerna á Íslandi, sem er eins og hæstv. forseti hefur þegar tilkynnt, 327. mál þessa þings á þskj. 404. Auk mín flytur þetta mál hv. þingkona Guðný Guðbjörnsdóttir. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kortleggja ósnortin víðerni á Íslandi. Gerð verði áætlun um verkefnið, umfang þess og kostnað, og nauðsynleg framlög mörkuð í fjárlögum.``

Eins og glöggir þingmenn hafa eflaust áttað sig á er um nokkurs konar framhaldssögu að ræða. Ég minni á að vorið 1997 ályktaði Alþingi að fela umhvrh. að móta stefnu um varðveislu ósnortinna víðerna landsins og samþykkti þar með tillögu þá sem þingkonur Kvennalistans lögðu fram um þetta efni og að stofnaður yrði starfshópur sem fengi það hlutverk að skilgreina hugtakið ósnortið víðerni en þetta hugtak var þá komið í almenna notkun, ef svo má að orði komast, m.a. í umfjöllun um störf nefndar um skipulag miðhálendis Íslands. Þegar spurt var og eftir leitað hvað átt væri við með þessu hugtaki varð fátt um svör og þess vegna þótti okkur brýnt að fá hugtakið skilgreint. Starfshópurinn skilaði niðurstöðu í febrúar 1998 og hún er birt sem fskj. ásamt greinargerð og nánari skýringum sem ég hvet þingmenn til að kynna sér. Það kom í hlut þeirrar sem hér stendur að stýra þessu verki en nefndina skipuðu hinir mætustu menn sem eru taldir upp í greinargerðinni.

Haldi menn að þetta hafi verið einfalt verk, þá reyndist það hreint ekki svo. Verkefnið var mjög skemmtilegt, það bauð upp á miklar athuganir og umræður enda ljóst að í raun er vart lófastór blettur á þessu landi sem getur talist ósnortinn nema þá helst þegar hann er hulinn nýföllnum snjó. Það er því óhugsandi að notað orðið ,,ósnortið`` bókstaflega í þessu samhengi, heldur verður að taka tillit til núverandi ástands landsins þar sem beinna og óbeinna áhrifa meira en 1100 ára byggðar gætir um allt land. Það varð þó niðurstaða nefndarmanna að halda þessu orði og þessu hugtaki sem þegar hafði áunnið sér nokkurn sess.

Niðurstaða starfshópsins var sú að skilgreina hugtakið ,,ósnortið víðerni`` svo að það væri landsvæði þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa, sem er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum og sem er a.m.k. 25 ferkílómetrar að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu. Þetta var sem sagt skilgreiningin en í greinargerð koma fram þau skilyrði sem við ákváðum að yrðu að vera fyrir hendi til þess að þessi skilgreining gæti átt við og markmið með varðveislu ósnortinna víðerna, svo og leiðir sem næstu skref í afmörkun og verndun ósnortinna víðerna auk nánari skýringa um það hvað má og hvað ekki innan ósnortins víðernis.

Í tillögunni um varðveislu ósnortinna víðerna sem fyrrgreind ályktun Alþingis byggðist á var ekki aðeins kveðið á um skilgreiningu hugtaksins og mótun stefnu um varðveislu ósnortinna víðerna heldur var þar einnig gert ráð fyrir að slík svæði yrðu kortlögð. Sá þáttur tillögunnar var felldur brott í meðförum þingnefndar, fyrst og fremst vegna kostnaðar við slíkt verk. Þess skal getið að í tengslum við störf skilgreiningarhópsins var unnið gróft yfirlitskort sem gefur vísbendingar um þau svæði sem talist gætu ósnortin víðerni samkvæmt tillögu starfshópsins. Það kort er mjög athyglisvert og gefur til kynna að það eru býsna stór svæði sem geta fallið undir þessa skilgreiningu hvernig svo sem menn vilja svo vinna úr því efni. En það er ætlan okkar sem leggjum tillöguna fram að ekki verði hjá því komist að kortleggja þessi svæði nákvæmlega og þá með það fyrir augum að styrkja varðveislu þeirra og leggja grunn að nýtingu þeirra sem mikilvægs þáttar í ímynd Íslands. Sérstaða landsins felst fyrst og fremst í einstæðri náttúru og því hve strjálbýlt landið er og stórir hlutar þess enn óbyggðir og lausir við mannvirki og rask. Þessi sérstaða er einn stærsti þátturinn í þeirri ímynd sem flestir vilja að landið hafi og sem er í æ ríkari mæli notuð sem grunnur undir uppbyggingu og eflingu atvinnuvega. Má þar nefna bæði ferðaþjónustu og matvælavinnslu en í rauninni mætti nýta þessa sérstöðu á miklu víðtækari og markvissari hátt. En ég vil leggja áherslu á að með því er alls ekki verið að tala um að fylla þessi ósnortnu svæði af ferðamönnum heldur að benda á þann stóra þátt sem þau eiga í ímynd lands og þjóðar. Nýlegar rannsóknir benda til að þessir möguleikar séu vannýttir og helsta ástæðan gæti einmitt verið sú að ímyndin er ekki nægilega afmörkuð og skilgreind. Stórbrotið landslag, sérstæð náttúra og hreinleiki er engan veginn jafneinfalt og augljóst ímyndarmerki og t.d. Frelsisstyttan í New York eða Eiffelturninn í París sem allir tengja umsvifalaust við viðkomandi lönd. Öðru máli gegndi t.d. um ,,stærsta ósnortna víðerni í Evrópu`` sem flestir telja að sé að finna hér á landi. Hins vegar skortir skjalfestan grunn undir slíka fullyrðingu og er tillagan leið til þess að bæta úr því.

Að lokinni umræðunni legg ég til, herra forseti, að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. umhvn.