Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:19:54 (3705)

1999-02-16 17:19:54# 123. lþ. 66.54 fundur 369. mál: #A fæðingarorlof# frv., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:19]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um fæðingarorlof. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Kristín Halldórsdóttir.

Þetta er annað þingið í röð sem við flytjum þetta frv. en um er að ræða frv. sem Kvennalistinn hefur lagt mjög mikla áherslu á og gerði landsfundarsamþykkt um. Ég tel að um mjög vandað frv. sé að ræða og mikil synd að ekki skuli vera meiri tími til umræðu og skoðanaskipta um þetta mikilvæga mál en eins og margir vita hefur lenging á fæðingarorlofi verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum missirum og útlit fyrir að það verði eitt af kosningamálunum nú í vor.

Í frv. eru lagðar til breytingar á tvennum lögum, þ.e. annars vegar breytingar á lögum um fæðingarorlof frá 1987 og hins vegar breytingar á lögum um almannatryggingar frá 1993. Ég ætla tímans vegna ekki að fara nákvæmlega í efnisgreinarnar heldur aðeins að tæpa á því helsta en það hefur verið samþykkt að hafa mjög stutt mál í dag. Samkvæmt 1. gr. frv. er lagt til að foreldrar eigi rétt á fæðingarorlofi í allt að 12 mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur og að foreldrar geti tekið hluta fæðingarorlofs með hlutastarfi og lengist þá orlofið í hlutfalli við vinnu.

Í 3. gr. frv. er lagt til að foreldrar skuli fá greidd full laun í fæðingarorlofi. Þetta er mjög mikið nýmæli þó að það eigi við ríkisstarfsmenn núna --- reyndar er það svolítið mismunandi hvernig full laun eru skilgreind í kjarasamningum þeirra --- en þetta er ein ástæðan fyrir því að mjög erfitt hefur verið fyrir feður að taka fæðingarorlof. Ef þeir eru á almennum vinnumarkaði hafa þeir yfirleitt verið háðir greiðslum frá Tryggingastofnun og þá verður fjölskyldan fyrir mjög miklum tekjumissi.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að þetta 12 mánaða fæðingarorlof sem báðir foreldrar geta tekið og skipt með sér þannig að feður eigi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs en geti tekið allt að sex mánuði verði komið í framkvæmd að fullu árið 2003, þ.e. að framkvæmdin komi til í áföngum.

Í II. kafla er fjallað um breytingar á almannatryggingalögunum. Þar eru annars vegar nauðsynlegar lagfæringar, sex mánuðir breytast í 12 og ákvæði af því tagi. En í 7. gr. frv. er sérstaklega kveðið á um nýja grein, 16. gr. a sem fjallar um fæðingarorlofssjóð og mig langar, herra forseti, að fara nákvæmlega í það atriði því ég tel að það sé eitt af merkum nýmælum þessa frv. að kveðið er á um breytta aðferð við greiðslu á fæðingarorlofi sem ég tel að geti skipt sköpum. Ekki eingöngu varðandi jafnrétti mæðra og feðra til töku fæðingarorlofs heldur muni það einnig ef þetta yrði raunin styrkja konur verulega á vinnumarkaði því að því miður er það oft notað gegn þeim ef þær eru á barneignaaldri, þær eru jafnvel oft spurðar þegar þær eru ráðnar í störf hvort þær fyrirhugi barneignir. Í þessari grein stendur:

,,Fæðingarorlofssjóður.

a. Stofna skal sérstakan sjóð, fæðingarorlofssjóð, sem varðveita skal hjá Tryggingastofnun ríkisins. Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum samkvæmt þessari grein.``

Það mætti líka hafa það þannig að foreldrar fengju greiðslur frá atvinnurekanda sínum sem síðar fengi endurgreiðslu úr sjóðnum.

Í b-lið stendur:

,,Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi skulu nema fjárhæð sem samsvarar heildarlaunum þeirra samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.`` --- Þarna er ráðherra gefið það vald að skilgreina hvort full þaun eru bara dagvinnulaun eða hvort það er einnig yfirvinna eða yfirvinna og bílagreiðslur o.s.frv. þannig að gera má ráð fyrir að þarna yrði að eiga sér stað einhver þróun sem gæti breyst með tímanum.

Í c-lið stendur:

,,Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði greiðast úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.``

Og d-liður er svohljóðandi:

,,Útgjöld lífeyristrygginga vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði skulu greidd af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga.``

Þarna er gert ráð fyrir að tryggingagjald hækki. Ekki er nákvæmlega útreiknað í greinargerðinni hvað það yrði mikið en þegar þetta verður komið til fullnaðarframkvæmda er þetta dýr aðgerð, getur kostað um 3 milljarða eða svo. En þetta er svo mikilvæg réttindaspurning fyrir íslenska foreldra að það hlýtur að koma að því að þjóðfélagið taki á þessu máli.

Í greinargerðinni er ítarlegt yfirlit yfir þróun fæðingarorlofsmála á Íslandi, allt frá því á árinu 1974 þegar litið var á barnsburð sem atvinnuleysi og yfir 1980 þegar greiðslur færðust til Tryggingastofnunar. Það sem er mjög sláandi við þessa sögu, og ég hef ekki tíma til þess að rekja, er að settar hafa verið á laggirnar mjög margar nefndir gegnum tíðina til þess að taka á þessum málum og Kvennalistinn hefur margoft átt frumkvæði að því að flytja frv. í þinginu. Þá er oft sem breytingar komi hægt og oftar en ekki er ágreiningur um greiðslur það mikill að það gerist ekkert í raun. Það virðist vera annars vegar ágreiningur um hvort beri að líta á fæðingarorlof sem einhvers konar atvinnutengd réttindi eða hvort þetta séu sjúkratryggingar og eigi þá við alla óháð atvinnuþátttöku.

Það sem ég vil sérstaklega ítreka og er nýtt í þessu frv. er að gert er ráð fyrir að feður fái þriggja mánaða sérstakan rétt til fæðingarorlofs, þ.e. sem er óháður réttindum móður og falli því niður ef þeir taka hann ekki, en samkvæmt frv. geta þó feður tekið allt að sex mánuðum eins og mæður. Mæður geta reyndar tekið allt að níu mánuðum. En það er mjög sláandi miðað við reynsluna á Norðurlöndunum að feður virðast helst taka þessar greiðslur ef um full laun er að ræða og rétturinn fellur niður ef þeir taka hann ekki. Þess vegna er fyllsta ástæða til þess að hafa hvatningu af þessu tagi í frv.

Þess má geta að feður á Íslandi hafa núna ekki neinn sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs fyrir utan þessar tvær vikur sem nýlega er búið að samþykkja og á síðustu 11 mánuðum hafa um 1.100 feður nýtt sér þennan sjálfstæða rétt til töku 14 daga fæðingarorlofs. Það sýnir að feður hafa mikinn áhuga á þessu og er vonandi að svo verði einnig ef frv. af þessu tagi nær fram að ganga.

En áherslan á að fólk fái full laun er mjög mikilvæg, ekki síst til þess að tryggja að feður taki einnig fæðingarorlof, þ.e. það kemur í ljós að ef feður fara á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, sem eru oft mun lægri en tekjur þeirra og oft líka mun lægri en tekjur mæðra, þá tekur sá aðilinn fæðingarorlofið sem lægri hefur tekjurnar og þetta misrétti er mjög brýnt að leiðrétta.

Það er sannfæring mín, herra forseti, að það fyrirkomulag sem hér er lagt til á greiðslum, þ.e. að til komi sérstakur fæðingarorlofssjóður, sé mjög gott og sérstakt og ég hef rætt það við ýmsa atvinnurekendur, ekki síst atvinnurekendur kvennavinnustaða sem hafa einmitt sagt að ef allar konurnar á vinnustað þeirra mundu eignast börn með stuttu millibili, þá mundi fyrirtækið hreinlega þurfa að leggja upp laupana. Núna er fyrirkomulagið þannig að atvinnurekendur greiða bara ákveðið hlutfall, tryggingagjald, af öllu starfsfólki sínu samkvæmt þessum tillögum og þá skiptir ekki máli fyrir vinnustaðinn hvort þar vinna eingöngu karlar eða eingöngu konur, þ.e. greiðslur atvinnurekenda eru þær sömu, og síðan ef viðkomandi faðir eða móðir fer í fæðingarorlof, þá fást hans laun eða hennar endurgreidd úr fæðingarorlofssjóði. Ég tel að þetta fyrirkomulag sé best að því leyti að það muni tryggja jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði mun betur en allar aðrar tillögur sem ég hef séð um þessi efni.

Það mætti fjölyrða mjög mikið um þetta mál, herra forseti, en ég held að ég sleppi því að sinni. Í greinargerðinni er farið mjög ítarlega út í kostnað af fæðingarorlofi og ljóst er að þarna er um dýra framkvæmd að ræða en einnig kemur fram að langflest fyrirtæki og lönd í kringum okkur eru smátt og smátt að kveikja á perunni með það að fólk eignast nú æ færri börn og það vill fá möguleika til þess að geta sinnt þessum fáu börnum sínum vel á fyrsta æviárinu en fyrsta æviárið er mjög mikilvægt fyrir þroska barnsins og tengsl þess við foreldra. Einnig má segja að allt bendi til að ef feður fá möguleika til þess að tengjast ungu barni sínu á fyrsta æviárinu og fá tækifæri til þess að sinna því þá muni það kalla fram hjá þeim sams konar tengsl og mæður hafa oft verið einar færar um að nýta og því er þetta mjög líklegt til þess að hvetja til jafnréttis í uppeldi barna einnig.

Ég vil í því sambandi minna á mjög merka tilraun sem Reykjavíkurborg stóð nýlega fyrir með styrkjum frá Evrópusambandinu. Það var einmitt mynd sýnd um þessa tilraun í ríkissjónvarpinu þar sem fram kom reynsla fjölskyldna af því að bæði feður og mæður tækju fæðingarorlof. Ég tel að þarna hafi mjög mikilvægt rannsóknarverkefni verið unnið sem sýni að þarna er leið sem ber að fara. Ég tel að þetta frv. vísi réttan veg og ég vona að það fái góðar undirtektir.