Búfjárhald, forðagæsla o.fl.

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:55:38 (3710)

1999-02-16 17:55:38# 123. lþ. 66.58 fundur 309. mál: #A búfjárhald, forðagæsla o.fl.# (varsla stórgripa) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:55]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, forðagæslu o.fl.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Árni M. Mathiesen, Kristín Halldórsdóttir, Magnús Stefánsson og Svavar Gestsson. Flutningsmenn eru með öðrum orðum, herra forseti, úr öllum þingflokkum.

Efni frv. er á þá leið að lagt er til að við 5. gr. laganna um búfjárhald bætist ný málsgrein er orðist svo, með leyfi forseta:

,,Eigendum stórgripa, þ.e. nautgripa og hrossa, er skylt að hafa gripi sína í vörslu allt árið og sjá til þess að þeir gangi ekki lausir á eða við þjóðvegi. Ákvæði þetta skal þó ekki hindra hagagöngu stórgripa utan girðinga þar sem tryggt þykir að af því hljótist engin hætta fyrir umferð, svo sem í heimalöndum eða afréttum sem liggja hvergi að alfaraleiðum. Viðkomandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnir skulu setja í samþykktir sínar um búfjárhald, sbr. 3.--4. gr., nauðsynleg ákvæði í þessu sambandi að höfðu samráði við lögreglustjóra. Engin slík ákvæði, sem heimila hagagöngu stórgripa utan girðinga, sbr. 2. málsl. þessarar málsgreinar, öðlast þó gildi nema landbúnaðarráðherra staðfesti þau.``

2. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Lög þessi öðlast gildi 1. september 2000.``

Herra forseti. Hér er með öðrum orðum verið að leggja til almenna vörsluskyldu á stórgripum í landinu. Þetta er gert með hliðsjón af því að enn er það svo, því miður, að á nokkrum svæðum á landinu er um mjög alvarlega árekstra að ræða milli stórgripa eða búpenings og umferðar. Sá er munur á að í tilviki stórgripanna er oft um mjög alvarleg slys að ræða en það er mun sjaldgæfara þegar annar búpeningur eða sauðfé á í hlut. Það er því að mínu mati, herra forseti, bæði skylt og rétt að gera greinarmun á þessum tilvikum og auk þess er ljóst að vörsluskylda er almenn, varsla á stórgripum er almenn. Þeir eru almennt ekki í lausagöngu og það er í mjög afmörkuðum tilvikum sem þetta ástand á við. Þar af leiðandi er því mun minni röskun og minni breyting frá almennum búskaparháttum í landinu eins og þeir eru orðnir að stíga skrefið til fulls og fyrirskipa almenna vörsluskyldu á stórgripum.

Í raun er það mín skoðun, herra forseti, að lausaganga stórgripa í byggð og í nágrenni við vegi sé algjör tímaskekkja og það sé landbúnaðinum til óþurftar að hafa ekki tekið á þessu máli. Það er ekki heldur hægt að horfa upp á það að trassaskapur af því tagi sem þarna á í hlut á ákveðnum svæðum í landinu skuli valda alvarlegum slysum og jafnvel dauðaslysum í nokkrum mæli á hverju einasta ári.

Herra forseti. Ég held að það sé mjög óskynsamlegt eins og svolítið hefur borið á í umræðum um þessi mál að leggja að jöfnu annars vegar fjárbúskap og hins vegar stórgripahald. Þar er um mjög óskylda hluti að ræða. Það er ljóst að það væri gríðarleg breyting og mundi kosta feiknalegt átak ef fyrirskipa ætti vörsluskyldu á sauðfé og mun minni ástæða er til þess þar sem lausaganga sauðfjár á afréttum er almenn regla og þeir liggja víða að vegum, en upprekstur á stórgripum og þá fyrst og fremst hrossum, er nánast aflagður. Það er því ekki nema í sárafáum tilvikum sem það veldur einhverri röskun á högun bænda þó að skrefið sé stigið til fulls og vörsluskylda fyrirskipuð á stórgripunum. Þar er langoftast um að ræða hross en þó er aðeins til að nautgripir, einkum ungir nautgripir, séu í lausagöngu og valdi slysum.

Auðvitað þarf margt að skoða í tengslum við svona breytingar og þess vegna m.a. er gefinn ákveðinn aðlögunartími. Hann er hugsaður fyrir bændur til þess að undirbúa sig undir þessar breytingar í þeim fáu tilvikum þar sem um verulegt átak er að ræða í sambandi við girðingar og annað. En hann er líka hugsaður til þess að það má þá fara yfir það hvort t.d. ástæða sé til að gera breytingar á umferðarlögum. Ég er þá fyrst og fremst að hugsa um þær greinar umferðarlaganna sem varða skiptingu tjóns og ábyrgðir. Það yrði þá 80. gr. umferðarlaga, ef ég man rétt, sem kæmi til skoðunar í þessu sambandi, í raun er það 88. gr. umferðarlaga, ef ég man rétt, laga nr. 50/1987. Þar eru heimildir til að skipta tjóni í samræmi við ábyrgð hvers og eins og til þeirra mætti vísa þegar um slíkt yrði að ræða.

Herra forseti. Núverandi ástand er engan veginn nógu gott. Menn bundu vonir við það þegar lögum var breytt á árinu 1991 í þessu sambandi og sveitarfélögunum voru fengnar sterkari heimildir til þess að fyrirskipa vörslu með reglugerðum, að í framhaldinu yrði tekið á þessu vandamáli. Það var gert víða en því miður ekki alls staðar. Af einhverjum ástæðum hafa nokkur sveitarfélög í landinu ekki treyst sér til að setja samþykktir um vörslu á stórgripum. Þó það sé almenna reglan, og ég fullyrði að yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga í landinu sé með slíka vörsluskyldu í sínum samþykktum, þá eru það undantekningarnar sem við erum að ræða um og þær verða þess valdandi að þessi mál hafa ekki komist í lag.

Herra forseti. Ég vísa að öðru leyti til fylgiskjala með frv. sem eru nokkuð ítarleg. Mér þykir miður að verða að segja það, herra forseti, af því að hér er um endurflutning á máli að ræða --- það var flutt tvívegis á síðasta kjörtímbili og einnig á síðasta þingi og hefur aldrei fengið afgreiðslu --- að það gerist svona æ leiðinlegra með árunum, herra forseti, eftir því sem árum manns fjölgar á þingi, að standa frammi fyrir því að mál af þessu tagi geti legið hér afvelta svo árum skiptir og aldrei fengið efnislega afgreiðslu á þinginu (Gripið fram í: Í lausagangi.) og eru bara hér í lausagangi. Þetta er ósiður, herra forseti, sem Alþingi Íslendinga verður að fara að rífa sig upp úr. Ég held að ekki sé um annað að ræða en setja einhverjar reglur í þingsköpin sem tryggja það að þegar um endurflutning á málum er að ræða, sem þegar hafa farið til umsagnar, þá skuli afgreiða þau í síðasta lagi þegar um annan endurflutning er að ræða og þá með einhverri skilagrein úr viðkomandi þingnefnd inn til þingsins.

Einnig kæmi sú regla vel til athugunar að þingmálin lifi einfaldlega milli þinga þannig að vinnist einu þingi ekki tími til að afgreiða málið, þá vakni það upp á sama stað og það var áður statt á þegar þing kemur saman að nýju að hausti. Í öllu falli, herra forseti, er það alveg óviðunandi að mál af þessu tagi skuli ekki fást afgreitt.

Ég hef tekið eftir því að fleiri mál, ætli þau séu ekki tvö, fyrirspurnir og þingmál, sem tengjast skyldum hlutum, lausagöngu búfjár og spurningunni um árekstra búfjár og umferðar o.s.frv., hafa verið til umfjöllunar og sjálfsagt fær ekkert þeirra afgreiðslu á þessu síðasta þingi þessa kjörtímabils. Ég verð með öðrum orðum, herra forseti, að viðurkenna það að ég er ekki ýkja bjartsýnn á að fá þetta mál afgreitt nú þó mér fyndist það skynsamlegt og hefði gaman af því ef Alþingi tæki á sig rögg og tæki á þessu vandamáli. Það sem hér er lagt til er að mínu mati skynsamleg nálgun og hófsamleg. Hér er ekki verið að leggja til íþyngjandi aðgerðir í miklum mæli gagnvart landbúnaðinum. Það er verið að leggja til að tekið verði á þessum árekstrum eða þeim núningi sem þarna er á milli búskaparhátta í landinu og umferðarinnar. Það er öllum til góðs að það sé gert og ekki síst landbúnaðinum sjálfum og þeim sem þar lifa og starfa því að reglubundnar fréttir um slys og óhöpp sem tengjast árekstrum búfjár og umferðar eru ekki sérstaklega jákvæð auglýsing, herra forseti, fyrir búskapinn í landinu.