Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 18:23:58 (3714)

1999-02-16 18:23:58# 123. lþ. 66.62 fundur 383. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[18:23]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Þetta minnir mig á hálfhlægilega könnun sem var birt í dagblöðum landsins hér um daginn sem sýndi að konur væru miklu oftar veikar en karlmenn og fjarverandi frá vinnu af þeim sökum. Því var slegið upp að þær væru svo sannarlega veikara kynið. En auðvitað er hægt að lesa í gegnum þessar línur að þær eru miklu meira heima með veikum börnum en karlmenn nokkurn tíma og því er þessi till. til þál. sem hér er lögð fram afskaplega mikilvægt jafnréttismál og gott mál á ferðinni.

Allir foreldrar vita að úr vöndu er að ráða þegar barn veikist og báðir foreldrar vinna úti. Einhver verður að vera hjá barninu. Einhvern veginn virðist það vera að konan verði oftar fyrir valinu í þeim efnum. Hugsanlega er það af því að konur, eins og við vitum, virðast ekki vinna fyrir jafnháum tekjum og karlinn og að foreldrar taki þá ákvörðun út frá því að það borgi sig frekar fyrir fjölskylduna að fórna tekjum konunnar en karlsins.

Ef þessi tillaga næði fram að ganga og nefndin sem hér er lagt til að skilaði einhverjum niðurstöðum, væri þar komið til móts við feður sem vildu vera heima hjá veikum börnum sínum. Eins gefur þetta kost á því að báðir foreldrarnir geti verið heima hjá veiku barni. En veikt barn getur þarfnast stöðugrar umönnunar og það getur verið mjög lýjandi fyrir einungis annað foreldrið að vera hjá því. Ég tel að hérna sé um mikilvægt jafnréttismál sé að ræða og mikilvægt félagsmál og velferðarmál og það er vonandi að það fái jákvæða meðferð í þinginu.