Útflutningur á íslenskri dægurlagatónlist

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 18:43:47 (3718)

1999-02-16 18:43:47# 123. lþ. 66.67 fundur 505. mál: #A útflutningur á íslenskri dægurlagatónlist# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[18:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka flutningsmanni fyrir þessa ágætu tillögu. Mér datt í hug á meðan ég var að hlusta á hann að hefði Björk Guðmundsdóttir ekki komið til að þá hefðu menn sennilega ekki tekið svona tillögu mjög alvarlega. En hún hefur svo sannarlega breytt miklu hvað varðar íslenska dægurtónlist og auðvitað er ekki annað hægt en að taka hana og ýmsa aðra sem eru að fást við dægurlagatónlist mjög alvarlega.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að fyrir árið 1963 var popptónlist ekki mjög hátt skrifuð í Bretlandi. Bandaríkin voru alls ráðandi á þeim markaði. En þá gerðist það að nokkrar hljómsveitir, sem höfðu verið að spila á klúbbum og í kjöllurum í Liverpool, náðu inn í útvarpsstöðvarnar og fyrst og fremst hljómsveitin The Beatles, eða Bítlarnir eins og hún hefur nú löngum verið kölluð hér, og á skömmum tíma varð algjör bylting í Bretlandi. Á örfáum árum varð útflutningur popptónlistar að mjög mikilli útflutningsgrein.

Ég veit ekki hve miklar tekjur Bretar hafa af popptónlist í dag því að auðvitað hefur það svo sem gengið upp og niður en þeir hafa enn þann dag í dag mjög miklar tekjur af þessari tónlist. Þetta var þvílík lyftistöng í bresku efnahagslífi á sínum tíma að stjórnvöldum fannst ástæða til þess að veita Bítlunum orðu af þessu tilefni vegna þess að þeir höfðu rutt þarna braut fyrir nýja atvinnugrein.

Það er því sannarlega ástæða til að skoða alla möguleika og allt sem að þessu máli snýr, m.a. skattaumhverfið og það hvernig hægt er að aðstoða þá sem eru að reyna að koma sér á framfæri. Ég hygg að íslensk utanríkisþjónusta hafi ekki verið mjög upptekin af þessu en þó er einn ágætur maður, sem hefur verið staðsettur í London, sem hefur eitthvað sinnt þessu, þ.e. Jakob Magnússon. Mér er bara ekki kunnugt um hvort hann er farinn þangað aftur eftir prófkjörsslaginn eða ... (Gripið fram í: Hann er farinn.) Hann er farinn aftur, er upplýst hér úr þingsal. Þá vitum við það, hæstv. forseti, þannig að hann heldur kannski áfram störfum sínum þar. En ég hygg að menn hafi hingað til ekki verið mjög uppteknir af þessum möguleikum, hvað þá öðrum möguleikum sem kunna að felast í íslensku listalífi. Það var einmitt verið að segja frá því að verið var að kynna einn af okkar efnilegustu leikurum. Af því að Svíar komu hér mikið við sögu að þá má segja að Svíar hafi verið nokkuð stórtækir í útflutningi á kvikmyndum sínum og leikurum sínum því þeir hafa átt leikara á heimsmælikvarða og eiga enn.

Möguleikarnir eru því ýmsir, en eins og ég sagði í upphafi held ég að menn hefðu varla tekið svona mál alvarlega ef Björk Guðmundsdóttir hefði ekki komið til. Ég ítreka að ég tek undir efni tillögunnar. Mig rámar í það að hæstv. viðskrh. hafi sett einhverja nefnd á laggir með íslenskum tónlistarmönnum en hvort sú nefnd hefur skilað af sér, það bara man ég ekki. Mig minnir það en a.m.k. kannast ég ekki við að neinum tillögum hafi verið fylgt eftir. Þetta mun menntmn. væntanlega kynna sér þegar hún tekur málið á dagskrá og ég skal gera mitt til þess að reyna að ýta á það að þessi tillaga verði afgreidd því að þetta er hið besta mál og útlátalaust fyrir ríkisstjórnina að beita sér í þessu ágæta málefni.