Fornleifauppgröftur í Skálholti

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 18:48:35 (3719)

1999-02-16 18:48:35# 123. lþ. 66.68 fundur 515. mál: #A fornleifauppgröftur í Skálholti# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[18:48]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Mér verður tíðförult í stólinn á þessum degi enda eru eingöngu málefni stjórnarandstöðunnar hér á dagskrá. Hér er komin tillaga sem ég er flutningsmaður að, um fornleifauppgröft í Skálholti, sem er mér mikið hjartans mál.

Í þessari tillögu er lagt til að Alþingi feli menntamálaráðherra að hefja nú þegar undirbúning að uppgreftri hinna fornu bæjarhúsa á biskupssetrinu í Skálholti í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku. Skal uppgröfturinn hefjast svo fljótt sem auðið er. Þetta segir í tillögugreininni.

Mörgum sem til þekkja er kunnugt um að á árunum 1954--1958 fór fram mikil fornleifarannsókn í Skálholti þar sem kirkjurústirnar voru grafnar upp og jafnframt göngin sem lágu frá kirkjunni og út í biskupssetrið. En sjálf bæjarhúsin, biskupsgarðurinn hefur aldrei verið grafinn upp og mér er ekki einu sinni kunnugt um að gerðir hafi verið neinir tilraunaskurðir þar en þó kann það að vera.

Að mínum dómi er þarna um að ræða eitthvert mest spennandi verkefni sem hægt er að hugsa sér í íslenskri fornleifafræði og okkur til vansa að ekki skuli fyrir löngu vera búið að grafa upp og rannsaka þennan merka sögustað okkar. En það er með það eins og svo margt annað, við eigum rannsóknir eftir á Hólum í Hjaltadal, á Þingvöllum, í Reykholti og víðar á helstu sögustöðum landsins.

Fram undan er þúsund ára afmæli kristnitökunnar og því tel ég tilvalið að minnast hennar með því að leggja út í þessar rannsóknir og þegar þeim er lokið að nota þá það sem upp kann að koma og rústirnar sjálfar til þess að búa til einhvers konar safn í Skálholti því að það er auðvitað svo, hæstv. forseti, að þeir sem koma til þessa sögustaðar okkar sjá nú harla fátt. Þar er kirkja, þar er skóli, þar er bústaður og þar eru geymslur eða smásafn í kjallaranum undir kirkjunni. En miðað við hvað þarna er um merkan stað að ræða og miklar rústir þá má auðvitað segja að þarna sé kjörið tækifæri fyrir sögukennslu og ferðaþjónustu, ferðamenn og aðra sem koma í Skálholt.

Ég er alveg sannfærð um það að verði grafið í Skálholti þá munu þar koma upp mjög merkar rústir og eflaust mun þar mjög margt finnast enda erum við að tala um stað sem líklega hefur verið í byggð frá því á landnámsöld. Við vitum að byggð var í Skálholti fyrir kristnitökuna og að fyrstu íslensku biskuparnir gerðu Skálholt að sínu aðsetri. Skálholt var heimajörð þeirra Ísleifs Gissurarsonar og síðar Gissurar Ísleifssonar og það var Gissur sem gaf jörðina til biskupsseturs og mælti svo um að þar skyldi biskup sitja meðan byggð væri í landinu. En þeir tímar komu, hæstv. forseti, að Suðurlandsskjálfti reið yfir árið 1784. Hann var að því er talið er hvorki meira né minna en 7,5 á Richter. Þá hrundu bæjarhúsin í Skálholti og þá fannst þáverandi stjórnvöldum einsýnt að það mikill kostnaður yrði við að byggja biskupssetrið upp aftur að nær væri að flytja það til Reykjavíkur. Og það var gert um leið og biskupsdæmið á Hólum var lagt niður. Þetta var á þeim tímum þegar íslenskt samfélag stóð sem allra höllustum fæti.

En til að gera langa sögu stutta þá hefur verið skóli í Skálholti frá dögum Ísleifs. Þar hefur líklega ávallt unnið margt fólk. Þar hefur verið mikil umferð gesta og gangandi, eins og frásagnir vitna um og því má vænta þess að gríðarlega margt komi þar upp úr rústunum.

Ég vil að lokum geta þess að til er uppmæling af Skálholtsstað sem Steingrímur Jónsson, síðar biskup, gerði árið 1784. Ég hygg að styðjast megi við þær teikningar svona í fyrstunni meðan menn eru að grafa upp efsta lagið. En ég hygg að menn muni þurfa að fara nokkuð djúpt. Sem betur fer eru þessar rústir ósnortnar. Menn höfðu sem betur fer vit á því að byggja á öðrum stöðum og því er bæjarhóllinn ósnortinn og bíður þess að upp úr honum komi sú mikla saga sem ég efast ekki um að verður hægt að grafa upp á þessum stað.

Eins og segir í lok greinargerðarinnar þá held ég að við gætum varla gefið okkur betri gjöf, sé til þess vilji, í tilefni af þúsund ára kristnitökunni, en þá að grafa upp á þessum merka sögustað.