Fornleifauppgröftur í Skálholti

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 18:54:46 (3720)

1999-02-16 18:54:46# 123. lþ. 66.68 fundur 515. mál: #A fornleifauppgröftur í Skálholti# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[18:54]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Þetta er góð till. til þál. sem hér liggur fyrir um uppgröft í Skálholti.

Þó það sé ekki alveg tengt þessari tillögu þá hefur mér samt fundist að Skálholti hafi ekki verið alveg nægur og verðskuldaður sómi sýndur, þó svo að þar sé vissulega nú aðsetur vígslubiskups og að þar hafi verið lýðskóli, ef ég man rétt, til skamms tíma a.m.k. En eins og kemur fram í greinargerðinni með tillögunni hefur verið skóli þarna allt frá því á elleftu öld. Og þeir eru ekki margir skólarnir í Evrópu eða heiminum jafnvel sem geta státað af jafnlangri hefð og er þetta sambærilegt við skólana í Oxford, Cambridge, Sorbonne og víðar.

Ég hef einnig oft velt því fyrir mér í umræðunni um byggðastefnu að menn hafa ekki skoðað þann möguleika sem blasir við víðast hvar erlendis, því þar sér maður að stórir háskólar eru ekkert endilega staðsettir í miðjum borgum, eins og hér vill vera, heldur úti í sveit í kyrrð náttúrunnar. Ég tel að það væri mannsbragur að því að koma upp háskóla á þessum merka stað til þess að kenna þó ekki væri nema einhverjar vinsælar greinar sem nemendur slást um að komast í við Háskóla Íslands. Ég nefni lögfræði sem dæmi. Það væri kjörið að kenna eitthvað slíkt á svona stað. Það yrði lyftistöng fyrir sveitirnar og mundi mundi hefja þennan forna menningarstað, einn merkasta sögustað Íslands og Íslandsbyggðar, í þann sess sem hann á svo sannarlega skilinn.

Þessi tillaga er um fornleifauppgröft og það er gott að menn hafa sést fyrir og ekki byggt á þessum stað sem hér er lagt til að verði grafinn upp. Ég heyrði nú sagt frá því að menn hefðu kannski verið fullfljótir á sér þegar kirkjunni var valinn staður þar sem hún er, því þar undir hefði hugsanlega verið hægt að grafa meira og finna frekari fornminjar og því hefði jafnvel þurft að koma kirkjunni fyrir á öðrum stað á meðan því verkefni lyki. En það er kannski ekki tilefni til að ræða það mikið hér. Þetta er góð tillaga og styð ég hana og vona að hún nái fram að ganga.