Skattframtöl

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:03:32 (3725)

1999-02-17 14:03:32# 123. lþ. 68.26 fundur 418. mál: #A skattframtöl# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég skal reyna að nota tímann eins vel og ég get, þennan stutta valdatíma sem eftir er til að ýta þessum málum áfram.

Hv. þm. spurði hvort hægt væri að vera nákvæmari í tímasetningum í málinu. Það er því miður ekki hægt og ekki ráðlegt heldur. Næsta skref er að byrja að færa upplýsingar sem fyrir liggja beint inn á framtöl. Gert er ráð fyrir að það megi gera í áföngum á næstu tveimur árum eða svo. Þá yrði væntanlega komið verulega til móts við þann hóp framteljenda sem er með einföldustu framtölin, hvorki verktakagreiðslur né þá tegund af greiðslum sem þriðji aðili hefur ekki upplýsingar um. Þetta er því allt í vinnslu. Auðvitað hefur orðið mikil breyting á að undanförnu með hagnýtingu tölvutækninnar í þessum efnum, bæði fyrir lögaðila og einstaklinga.

Þingmaðurinn gat réttilega um að víðar í þessu kerfi mætti vinna að einföldun þessa og því að gera fólki auðveldara fyrir með að koma upplýsingum til skila á skattframtölum. Það er einnig rétt sem þingmaðurinn sagði, að margir hræðast hreinlega framtölin og eiga í erfiðleikum með að koma réttum upplýsingunum frá sér. Þótt ekki sé við annað en færa á milli af launamiðum inn á framtöl þá geta orðið mistök. Auðvitað á að reyna að gera allt sem hægt er til að greiða fyrir því að þetta gangi villulaust og eðlilega fyrir sig, enda er það að sjálfsögðu vilji og ásetningur langsamlega flestra ef ekki allra skattgreiðenda að ganga þannig frá framtölum sínum.