Uppbyggingin á Eiríksstöðum í Haukadal

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:05:43 (3726)

1999-02-17 14:05:43# 123. lþ. 68.1 fundur 259. mál: #A uppbyggingin á Eiríksstöðum í Haukadal# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Fyrir löngu lagði ég fram fyrirspurn sem er á þessa leið: ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin stuðla að því að uppbyggingunni á Eiríksstöðum í Haukadal ljúki árið 2000?``

Fyrirspurnin var lögð fram í upphafi þings og má segja að efni hennar hafi að nokkru leyti þegar verið svarað. Í fjárlögum ársins 1999 er að mig minnir gert ráð fyrir 20 millj. kr. til uppbyggingarinnar á Eiríksstöðum í Haukadal. Þar hefur alllengi verið áformað að byggja upp bæ Eiríks rauða og Þjóðhildar og búa þannig um staðinn að ferðamenn komist þar um til að kynna sér sögulegar minjar sem þar er að finna.

Segja má að málið eigi sér nokkurn aðdraganda og sé hluti af þeim hátíðahöldum sem ætlunin er að efna til hér á landi og víðar á árinu 2000. Í því sambandi er nauðsynlegt að leggja á það áherslu að um málið hefur verið mjög víðtæk samstaða, bæði pólitísk og fagleg. Nú liggja fyrir niðurstöður fornleifafræðinga, Guðmundar Ólafssonar og Ragnheiðar Traustadóttur, sem rannsökuðu tættur Eiríksstaða sumarið 1997. Helstu niðurstöður þeirra voru að bær Eiríks rauða hafi staðið nákvæmlega þar sem talið er að hann hafi staðið. Þrátt fyrir að hugmyndir séu um annað og hafi sést í skjölum, m.a. fjárln., þá held ég að fagmenn geti haldið fast við þá niðurstöðu sem þarna fékkst í rannsóknunum árið 1997.

Ekki þarf að rifja upp hér hvaða saga hefst á þessum litla stað, á Eiríksstöðum í Haukadal. Þar bjó Eiríkur Þorvaldsson rauði og fjölskylda hans, flýði síðan þann stað og lenti á Grænlandi. Það var upphafið að mikið meiri sögu. Því má segja að þarna hafi hafist stórfelld tíðindi og því afar vel við hæfi að tryggja að uppbygging verði á Eiríksstöðum og meiri hluti Alþingis og Alþingi allt á þakkir skildar fyrir þá ákvörðun sem liggur fyrir í fjárlögum í þessu efni.

Í framhaldinu verður að tryggja að hægt verði að komast að staðnum. Það þarf að laga vegi fram Haukadal og að Eiríksstöðum. Það er verkefni Vegagerðarinnar og það þarf að ganga almennilega frá því. Síðan hafa Dalamenn eins og kunnugt er viðameiri hugmyndir, t.d. um uppbyggingu menningarhúss í Búðardal sem kallað yrði safn Leifs Eiríkssonar. Það er verkefni sem einnig þarf að huga að en fyrirspurnin snýst um uppbygginguna á Eiríksstöðum í Haukadal.