Handverk og hönnun, ráðgjafarþjónusta

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:18:09 (3732)

1999-02-17 14:18:09# 123. lþ. 68.2 fundur 293. mál: #A Handverk og hönnun, ráðgjafarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur orðið gífurleg þróun í íslenskri nytjalist, listiðnaði og íslensku handverki þar sem íslenskt hráefni er notað. Íslenskt handverk sem atvinnugrein hefur vaxið mikið. Ljóst er að á miklu ríður að til þess að atvinnugreinin vinni sér fastan sess í atvinnulífinu og verður því að standa vel og faglega að verki. Vegna eðlis atvinnugreinarinnar, þ.e. að hér er um að ræða marga tiltölulega smáa framleiðendur, verður að styðja við hana meðan fyrstu sporin eru stigin, bæði með faglegri aðstoð og tilboði um gæðastimpil á framleiðsluna. Tryggja verður að til verði íslenskt gæðahandverk og hönnun.

Vissulega eru komnir fram frumkvöðlar á þessu sviði sem leggja mikinn metnað í framleiðslu sína og kappkosta að halda uppi gæðastaðli sem er til fyrirmyndar. Þeir leggja mikinn metnað í hönnun á framleiðsluvörum sínum. Yfirleitt eru þeir að framleiða alíslenska gjafavöru úr náttúrulegu, íslensku hráefni. Sívaxandi straumur erlendra ferðamanna óskar einmitt eftir því að kaupa slíka vöru. Hér er því einnig um að ræða útflutningsvöru í því tilliti. Einnig er um atvinnugrein að ræða sem er m.a. mjög dreifð um byggðir landsins og eykur því atvinnulífið úti um land og fjölbreytni þess. Oft og tíðum er verið að nýta staðbundið, náttúrulegt hráefni, eins og mjög athyglisverð dæmi eru um á Austurlandi. Þar er t.d. verið að nota austfirskt hreindýraleður í tískufatnað, austfirskt grjót er nýtt í allt frá bollastellum að legsteinum, og austfirskur viður er nýttur í allt frá göngubollum til listútskurðar.

Stjórnvöld þurfa að gera sér grein fyrir því hvert hlutverk á að vera í þessari þróun. Verkefnið Handverk, hönnunarmiðstöð heimilis- og listiðnaðar, hefur verið á fjárlögum undanfarin ár. Þær upplýsingar sem ég hef nú þegar benda til þess að þar hafi verið unnið mikilvægt brautryðjendastarf. Verkefnið er hins vegar tilraunaverkefni og mikilvægt er að því óvissutímabili ljúki sem fylgir því að það er tilraunaverkefni. Mikilvægt er að festa starfsemina í sessi og að hún hafi áfram faglega og gæðalega forustu.

Í ljósi þessa hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. forsrh.:

,,1. Hvert er eðli verkefnisins Handverk og hönnun sem ráðuneytið hefur staðið fyrir á undanförnum fimm árum?

2. Hvaða árangur hefur orðið af verkefninu?

3. Hvert verður framhald þess?``