Framkvæmd 12. gr. jafnréttislaga

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:31:12 (3736)

1999-02-17 14:31:12# 123. lþ. 68.3 fundur 413. mál: #A framkvæmd 12. gr. jafnréttislaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr: Hefur verið áréttað við ráðuneytin að virða beri ákvæði í 12. gr. jafnréttislaganna eins og frekast er unnt, sbr. ummæli forsætisráðherra og félagsmálaráðherra á 122. löggjafarþingi? Í annan stað: Ef svo er, hvenær var það gert formlega og hversu oft hlutfallslega hefur verið vitnað í 12. gr. jafnréttislaganna í þeim tilnefningarbréfum sem farið hafa frá ráðuneytunum?

12. gr. jafnréttislaganna sem hér um ræðir, nr. 28/1991, hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.``

Þessi regla sem kemur fram í 12. gr. hefur margoft verið ítrekuð við ráðherra á ríkisstjórnarfundum sem er vettvangur ráðherranna, ráðherrafundir. Að öðru leyti hefur það ekki verið gert, enda á ekki að vera sérstök þörf á því að árétta við ráðuneytin að fara að lögum.

Þá vil ég taka fram að lagt hefur verið fram á Alþingi frv. að nýjum jafnréttislögum. Það er mál nr. 498 á þskj. 810. Í 21. gr. frv. er ákvæði er kemur í stað 12. gr. gildandi laga. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þátttaka í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera.

Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis og sveitarfélaga skal hlutfall kynja vera sem jafnast þar sem því verður við komið.

Þar sem tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna tvo, konu og karl.

Við skipun skal þess síðan gætt að skipting milli kynja sé sem jöfnust.

Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. ef sérstakar ástæður leiða til þess að illmögulegt er að framfylgja þeim. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.

Ákvæði 2. og 3. mgr. fellur sjálfkrafa úr gildi að liðnum tíu árum frá gildistöku laga þessara.``

Í grg. um 21. gr. er þetta sagt, með leyfi forseta:

,,Ákvæðið er efnislega samhljóða 12. gr. gildandi laga en orðalagi þess hefur verið breytt til að gera það skýrara. Lagt er til að ákvæðið taki ekki til félagasamtaka. Þá er lagt til að það eigi einungis við um þær nefndir, stjórnir og ráð sem tilnefnt er í en ekki sem kosið er til hlutfallskosningu. Enn fremur er lagt til að í 3. mgr. verði undantekningarákvæði ef aðstæður eru þær að illmögulegt sé að framfylgja 2. mgr. Ef frumvarpið verður að lögum þarf tilnefningaraðili að rökstyðja ástæður sínar fyrir frávikinu. Skýra ber 3. mgr. þröngt líkt og gildir um önnur undantekningarákvæði laga. Um er að ræða átaksverkefni til að jafna hlut kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum og því er lagt til að það falli úr gildi að tíu árum liðnum frá gildistöku þess.``

Í almennum athugasemdum um frv. eru nefnd helstu nýmæli þess. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ákvæði í íslenskri löggjöf um hlut kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum hafa verið mun veikari en annars staðar á Norðurlöndunum og hlutur kvenna í þessum efnum er verulega lakari hér. Í frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á ákvæðinu en jafnframt að það taki ekki til félagasamtaka. Um er að ræða sérstakt átak og að tíu árum liðnum er gert ráð fyrir að ekki sé þörf á ákvæði sem þessu í jafnréttislögum.``

Ég vil taka það fram að ekki vannst tími til að vinna úr öllum þeim tilnefningarbréfum sem farið hafa frá ráðuneytunum þessi undanfarin þrjú ár. Slíkri spurningu var svarað fyrir fjórum árum. Var mikil vinna lögð í að undirbúa það svar og ég vænti þess að þegar vinnunni lýkur að þessu sinni, verði þessu atriði svarað sérstaklega og skriflega.