Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:05:54 (3751)

1999-02-17 15:05:54# 123. lþ. 68.7 fundur 426. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að bera upp í fyrirspurnartíma þá spurningu hvort æskilegt væri að Alþingi staðfesti tillögu hæstv. dómsmrh. þegar hann skipar hæstaréttardómara. Ég hef verið í raun dálítið undrandi á því að þetta fyrirkomulag skuli ekki vera við lýði því að í mínum huga er dálítið óeðlilegt í ljósi þeirrar þrískiptingar á ríkisvaldi, sem hér er til staðar, að hinir tveir þættir ríkisvaldsins, þ.e. framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, skuli ekki sameinast um skipun dómara í æðsta dómstól þjóðarinnar sem fer þá með endanleg ráð hvað dómsþáttinn varðar, þ.e. Hæstiréttur. Ég vil því, virðulegi forseti, einungis lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að haga þyrfti málum á þann hátt að Alþingi staðfesti tillögu hæstv. dómsmrh. um skipun hæstaréttardómara í stað þess að framkvæmdarvaldið sjái eitt um þá skipun.