Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:09:02 (3753)

1999-02-17 15:09:02# 123. lþ. 68.7 fundur 426. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:09]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að deila mjög um þetta atriði, hvaða gildi það hefur að vísa málum til ríkisstjórnarinnar. Í þingsköpum og stjórnarskrá lýðveldisins segir alveg skilmerkilega að Alþingi geti vísað málum til ríkisstjórnarinnar ef það sjái ekki ástæðu til að álykta um málið á annan veg. Þetta þýðir með öðrum orðum, að þegar Alþingi vísar máli til ríkisstjórnarinnar þá tekur það ekki afstöðu í málinu. Í þál. tekur Alþingi ákveðna afstöðu, vilji þess er skýr og framkvæmdarvaldið er bundið við að framkvæma vilja Alþingis, en þegar málum er vísað til ríkisstjórnarinnar liggur alveg í augum uppi samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar að Alþingi hefur ekki tekið afstöðu í málinu, og um þetta þurfa menn auðvitað ekkert að deila því stjórnarskráin er alveg kristaltær í þessu efni.

Hvað varðar fyrirspurnina sjálfa þá geta menn auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvernig á að standa að skipun dómara. Það er alveg vafalaust að ef þróunin verður í þá veru að dómstólar taka sér meira sjálfstætt vald til að móta og setja löggjöf, þá kallar það á breytingar á skipun og stöðu hæstaréttardómara. Það vekur upp spurningar um æviráðningu þeirra og hvort þeir eigi ekki að vera lýðræðislega kjörnir. Ég vara hins vegar við þeirri þróun. Ég held að halda eigi dómstólunum sjálfstæðum og óháðum sem dómstólum um ágreining um lög sem löggjafarvaldið setur og að halda eigi valdinu til að setja lögin hjá löggjafarvaldinu og Alþingi. Þetta eru mikilvæg atriði en fari þróunin í þann farveg geta þessi sjónarmið komið upp en það hefur ekkert gerst enn í þessum efnum sem kallar á slíkar breytingar.