Réttindi heyrnarlausra

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:15:01 (3755)

1999-02-17 15:15:01# 123. lþ. 68.8 fundur 489. mál: #A réttindi heyrnarlausra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í kosningalögum eru ákvæði um það hvernig framboðslistar skulu kynntir. Þar segir að landskjörstjórn skuli gera almenningi kunna listana með auglýsingu í Lögbirtingablaði og blöðum. Í auglýsingu skal tilgreina bókstaf hvers lista, fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram og nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð, stöðu þeirra og heimili. Jafnframt skal landskjörstjórn birta í útvarpi auglýsingu, og skal þar tilgreina bókstaf hvers lista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram.

Samkvæmt þessu birtir landskjörstjórn tvær auglýsingar. Annars vegar er um að ræða auglýsingu í útvarpi um listabókstafi og stjórnmálasamtök í hverju kjördæmi. Hefur þessi auglýsing verið birt í Ríkisútvarpinu/hljóðvarpi. Hins vegar er um að ræða heildarauglýsingu um öll framboð með nöfnum frambjóðenda sem birt er í Lögbirtingablaði og blöðum. Þessa auglýsingu hefur landskjörstjórn birt í dagblöðum sem hafa dreifingu um allt land. Í landsmálablöðum hafa á vegum yfirkjörstjórnar að auki verið birtar auglýsingar um framboð í viðkomandi kjördæmi.

Ráðuneytið mun standa að kynningu á framboðslistum samkvæmt þessu lagaákvæði eins og gert hefur verið. Vegna þessarar umræðu og eins og hv. fyrirspyrjandi gerði réttilega er mikilvægt að benda á að kosningalögin gera ekki ráð fyrir því að stjórnvöld sjá um aðra kynningu en þá að gera grein fyrir hvaða listar eru í framboði og hverjir eru á hverjum lista. Samkvæmt kosningalögunum er hlutverk stjórnvalda ekki að kynna málstað einstakra flokka. Það verður að gera á annan hátt.

Rétt er að taka fram að Félag heyrnarlausra hafa ekki beint neinum erindum til dómsmrn. að þessu leyti.