Réttindi heyrnarlausra

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:18:39 (3757)

1999-02-17 15:18:39# 123. lþ. 68.8 fundur 489. mál: #A réttindi heyrnarlausra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Það er rétt að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að túlka stjórnmálaumræður fyrir þá sem ekki heyra. Það er einfalt mál í dag. Ég spurði hins vegar hæstv. dómsmrh. um afstöðu hans. Hvort og þá hvað hann hygðist gera til að rétta hlut þessa fólks. Reyndar mun ég spyrja fleiri ráðherra þessarar spurningar í dag, tvo aðra hæstv. ráðherra. Ein spurning til viðbótar bíður. Ég minni hins vegar á, vegna ummæla hæstv. ráðherra þar sem hann vitnar réttilega í kosningalögin, að þá ber að birta þessar kynningar á listunum í útvarpi. Vissulega dugar það skammt heyrnarlausu fólki að lesa upp auglýsingu í útvarpi. Þar sitja því heyrnarlausir ekki við sama borð og aðrir. Þar fyrir utan er aðeins farið fram á það við stjórnvöld að fá sambærilega þjónustu og aðrir. Það er ekki um mikið beðið, fyrir einar kosningar, einu sinni á kjörtímabilinu, að óska eftir túlkun á einum stjórnmálaumræðum. Maður hefði nú haldið að ríkisstjórnin ætti ekki að telja það eftir sér því þessi hópur greiðir afnotagjöld og stór hópur hans er með kosningarrétt. Um 80% heyrnarlausra hafa kosningarrétt. Maður hefði talið að dómsmrh., sem kosningalögin heyra undir, hefði einhverja afstöðu til þess hvernig hægt væri að tryggja þessu fólki sambærilega þjónustu fyrir kosningar þó ekki sé getið um það í sérstakri grein í kosningalögunum, um að þetta beri að kynna. Ég var einnig að vísa til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og sömuleiðis alþjóðasáttmála sem við erum aðilar að.