Eftirlit með ferðaskrifstofum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:39:36 (3765)

1999-02-17 15:39:36# 123. lþ. 68.10 fundur 432. mál: #A eftirlit með ferðaskrifstofum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svar hans. Það vakti óneitanlega athygli mína þegar hann gat um kvörtunarnefnd ferðaskrifstofa. Ég er ansi hræddur um að fjölmargir sem taka sér á hendur ferð með ferðaskrifstofum hafi þá líklega farið aðrar leiðir en þær sem eðlilegt er, þ.e. að beina máli sínu til kvörtunarnefndar ferðaskrifstofa. Ég tel að full ástæða sé til þess að það sé sérstaklega tekið fram og farþegum ferðaskrifstofa bent á að ef upp komi ágreiningsmál þá sé þessi nefnd til staðar og taki við kvörtunum ef einhverjar eru.

Mér fannst hins vegar athyglisvert í svari hæstv. samgrh. að ráðuneytið hefði lítið um þetta mál fjallað og lítið um það vitað þegar einstakar kvartanir berast frá farþegum ferðaskrifstofa í ljósi þess að einn fulltrúi þessarar kvörtunarnefndar er skipaður af samgrh. Því taldi ég það eðlilegt að samgrn. væri þess vegna í nánum og góðum tengslum við þessa nefnd og hennar störf.

Ég vil aðeins ítreka það að ég tel að full ástæða sé til þess að veita ferðaskrifstofunum gott aðhald í ljósi þessa og þeirra miklu umræðna sem oftar en ekki hefur borið á góma vegna ferða fólks á erlenda grund. Undantekningarnar eru svo miklar í smáa letrinu á farseðlinum að menn mega þakka fyrir ef þeir þurfa ekki að gista í tjöldum.