Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 16:05:37 (3774)

1999-02-17 16:05:37# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[16:05]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að vekja athygli á þessum myndarlega bæklingi sem ríkisstjórn Íslands hefur gefið út. Hann er um margt mjög upplýsandi. Ég hef verið á fundum víðs vegar um Suðurland að undanförnu og fjölmargir, sem á þeim fundum hafa verið, hafa þakkað fyrir þær upplýsingar sem þar koma fram.

Ég veit að hv. þm. er mjög áhugasamur um málefni hálendisins og um umhverfismál. Ég veit að það er fyrst og fremst góður hugur sem býr að baki því er hann vekur athygli á bæklingi þessum. Með bæklingnum er almenningur upplýstur um málefni sem við höfum deilt mjög um hér í þingsölum. Honum er ætlað að eyða ákveðinni óvissu og vekja athygli almennings á þeim fjársjóði sem hálendið er.

Löng hefð er fyrir umráðum yfir hálendi Íslands. Um það deilum við ekki. Bændur hafa nýtt hálendi Íslands um árabil.

Hv. þm. hefur átt í örlitlu basli með pokann sinn, þ.e. tjaldhælapokann, en ég er viss um að hv. þm. verður ekki í nokkrum vandræðum með að koma fyrir tjaldhælum sínum þegar óvissu hefur verið eytt um hálendi Íslands eins og þessi ríkisstjórn stefnir á að gera. (Gripið fram í: Og hún er fjársjóður?) Ríkisstjórnin?