Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 16:11:41 (3777)

1999-02-17 16:11:41# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða hafi verið til gagns. Ef ég undanskil athugasemdir hv. málshefjanda þá komu í raunar ekki neinar raunverulegar efnislegar kvartanir um þennan bækling. Menn reyndu að nota tækifærið til að viðhalda þeim ruglanda sem þeir höfðu áður komið á í umræðunni. Bæklingurinn var einmitt hugsaður til að draga úr þeim ruglanda vegna þess að það á ekki að vera í þágu neins, hvorki stjórnar né stjórnarandstöðu að ruglandi ríki um mál.

Hafi menn hins vegar vondan málstað þá vilja þeir auðvitað viðhalda ruglandanum en ekki fá aðgengilegar, réttar og skýrar og ljósar upplýsingar. Það er akkúrat það sem þessi bæklingur veitir og það er einmitt þess vegna sem bæklingurinn hefur mælst vel fyrir hjá flestum þeim sem hafa kynnt sér hann. Það eru þau viðbrögð sem við höfum fengið, svonefndir útgefendur bæklingsins.

Enn er reynt að halda fram þeim ruglingi að tilteknum sveitarfélögum hafi verið gefið miðhálendið og það tekið af almenningi fyrir vikið. Jafnvel fyrrverandi félagsmálaráðherrar halda slíkri firru fram. Það er eins og menn átti sig ekki á því að íslensk stjórnskipun byggir á því, og fram hjá því er ekki hægt að komast, að sveitarstjórnarlegu valdi sé hvarvetna til að dreifa í landinu. Hvarvetna í landinu þarf sveitarstjórnarlegt vald svo stjórnskipunin gangi sem og þau lög sem að skipulagsmálum lúta o.s.frv.

Nákvæmlega það voru menn að tryggja varðandi það atriði sem mest hefur deilt á, að sveitarstjórnarlegt vald væri til staðar. Við skulum gá að því að sveitarstjórnarmenn eiga fyrst og fremst að gæta hagsmuna íbúanna, þegnanna, en ekki annarlegra hagsmuna. Það gera þeir ekki. Þessi bæklingur útlistar m.a. þetta og það fer í taugarnar á þeim sem vilja viðhalda ruglandanum og treysta á að ruglandinn sé helsti stuðningsaðili þeirra í kosningum.