Fjöldi erlendra ferðamanna

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:07:57 (3780)

1999-02-17 18:07:57# 123. lþ. 68.11 fundur 453. mál: #A fjöldi erlendra ferðamanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:07]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þessar upplýsingar sem sýna afar vel þann mikla vaxtarbrodd sem er í ferðaþjónustu á Íslandi og á hvern hátt aukning hefur orðið á þessu 20 ára tímabili. Mjög merkilegt er að skoða þá töflu sem hæstv. samgrh. hefur afhent mér og það er til mikillar fyrirmyndar að fá töflu sem þessa í hendur vegna þess að auðvitað er um heilmikið talnaflóð að ræða og skiptir miklu máli að átta sig á því í þessu formi, þ.e. átta sig á þessum tölum með því að fá slíka töflu í hendur.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hefur fjölgun erlendra ferðamanna sl. 20 ár verið mjög mikil. Árið 1978 eru þetta 75.700 ferðamenn, en árið 1998 232.219 ferðamenn þannig að hér er um mjög mikla aukningu að ræða, hér er um mjög mikil verðmæti að ræða og það skiptir okkur afar miklu máli á Íslandi að átta okkur á þeirri þróun sem er að verða í þessum efnum. Ég þakka hæstv. ráðherra enn og aftur fyrir þessar upplýsingar. Ég hefði gjarnan viljað sjá skiptingu ferðamanna milli landshluta, þ.e. hvar þeir dveljast á ákveðnu tímabili en vonandi verða þær talnalegu upplýsingar sýnilegar áður en langt um líður.