Framboð gistirýma

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:16:44 (3783)

1999-02-17 18:16:44# 123. lþ. 68.12 fundur 454. mál: #A framboð gistirýma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:16]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir upplýsingarnar. Hér er um mjög athyglisverðar tölur að ræða. Þetta er athyglisverð þróun sem undirstrikar mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið.

Ég velti því gjarnan fyrir mér hver þáttur opinberra aðila í ferðaþjónustu eigi að vera. Eitt af því sem ég tel mjög brýnt í þeim efnum er að skapa jafna aðstöðu þéttbýlisbúa og dreifbýlisbúa í ferðaþjónustu. Í því sambandi vil ég nefna að okkur er skylt að bæta samgöngur, bílaumferð og þess háttar.

Sem opinberum aðilum er okkur einnig skylt að bæta tæknibúnað til samgangna og samskipta. Við ræddum það reyndar lítillega, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á mánudaginn var, hve algengt er að í dreifbýli séu gamaldags símalínur. Í nútímanum pantar fólk gjarnan hótelgistingu eftir svokölluðu interneti. Því er mjög brýnt að opinberir aðilar standi fyrir því að bæta tæknibúnað er lýtur að símakerfum og símalínum sem nýtt eru í samskiptum gegnum tölvur.

Enn og aftur hvet ég hæstv. samgrh. til þess að beita sér af alefli fyrir því að þessar tæknilegu samskiptaæðar verði endurnýjaðar hér á landi.