Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:27:32 (3787)

1999-02-17 18:27:32# 123. lþ. 68.13 fundur 468. mál: #A Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JónK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:27]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Við þingmenn Austurlands fengum erindið sem hann vitnaði til og ég leitaði reyndar skýringa hjá veðurstofustjóra og flugmálastjóra um þessi mál. Ég hef að hluta fengið svör sem voru í takt við það sem hæstv. samgrh. upplýsti hér. Í þessu sambandi vil ég leggja áherslu á að Egilsstaðavöllur var byggður upp sem varavöllur fyrir millilandaflug og auðvitað ber að leita tiltækra ráða til þess að hann þjóni því hlutverki. Mér er fullljóst að notkun vallarins sem varavallar er takmörkuð. Keflavíkurvöllur er mjög öruggur en ætíð getur komið fyrir að flugvélar sem koma frá útlöndum þurfi að leita lendingar á varavelli.

Hið versta í þessu sambandi er kannski að komið hefur fyrir að hálkuvandamál á Egilsstaðavelli hafi orðið til þess að flugvélar í beinu flugi, sem flytja farþega frá útlöndum beint til Austurlands, hafa snúið frá vellinum. Það er mjög óæskilegt að slíkt komi fyrir. Að öðru leyti hvet ég til þess að allra ráða verði neytt til að flugvöllurinn geti þjónað hlutverki sínu.