Slys á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:37:24 (3791)

1999-02-17 18:37:24# 123. lþ. 68.14 fundur 469. mál: #A slys á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:37]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hið sama er að segja um þessa fyrirspurn og þær tvær sem hér hafa áður verið ræddar að hér er óskað eftir talnaupplýsingum sem ekki er svigrúm til að lesa úr ræðustól. Það hefði kannski verið eðlilegt að fyrirspurnin hefði verið skrifleg af þeim sökum.

Fyrst er spurt hve mörg slys urðu á Reykjanesbraut sl. tvö ár samanborið við næstu fjögur ár þar á undan. Í svarinu sem hér fer á eftir verður Reykjanesbraut skipt í tvo kafla. Fyrri kaflinn er Reykjanesbraut innan höfuðborgarsvæðis, nánar tiltekið kaflinn frá Breiðholtsbraut að Krísuvíkurvegi. Síðari kaflinn nær frá Krísuvíkurvegi til Keflavíkur.

Reykjanesbraut innan höfuðborgarsvæðis: Á tímabilinu 1992--1996, fimm ára tímabili, urðu að meðaltali 69 slys á ári á þessum kafla. Meðalslysatíðnin, þ.e. fjöldi slysa á milljón ekinna kílómetra á ári, var 1,34. Til samanburðar má geta þess að meðalslysatíðni á ári á þjóðvegum utan þéttbýlis á þessu fimm ára tímabili var 1,01. Af þessum 69 slysum voru 20 með meiðslum á fólki. Tíðni slysa með meiðslum varð 0,38. Nefna má til samanburðar að meðaltíðni slysa með meiðslum á þjóðvegum utan þéttbýlis á tímabilinu 1992--1996 var einnig 0,38.

Árið 1997 varð 71 slys á þessum kafla Reykjanesbrautar. Slysatíðnin var 1,25 slys á milljón ekinna kílómetra. 15 þessara slysa voru með meiðslum á fólki. Tíðni slysa með meiðslum varð 0,26.

Ekki hefur verið lokið við að skrá slys sem urðu árið 1998 en þó hafa fengist upplýsingar frá skrifstofu Umferðarráðs um slys með meiðslum á fólki. Um er að ræða bráðabirgðatölur. Samkvæmt þessari bráðabirgðaskráningu urðu árið 1998 14 slys með meiðslum á kaflanum. Tíðni slysa með meiðslum varð 0,22.

Reykjanesbraut frá Krísuvíkurvegi til Keflavíkur: Á tímabilinu 1992--1996 urðu að meðaltali 40 slys á ári á þessum kafla. Meðalslysatíðni var 0,68 slys á hverja milljón ekinna kílómetra á ári og er það undir landsmeðaltali. Af þessum fjörutíu slysum voru 14 með meiðslum á fólki. Tíðni slysa með meiðslum var 0,23, sem er einnig undir landsmeðaltali.

Árið 1997 urðu 27 slys á þessum kafla Reykjanesbrautar, eða 0,41 slys á hverja milljón ekinna kílómetra. Af þessum 27 slysum urðu 15 með meiðslum á fólki. Tíðni slysa með meiðslum var því 0,23 eða jöfn meðaltali næstu fimm ára á undan.

Eins og áður segir liggja endanlegar slysatölur fyrir árið 1998 ekki fyrir. Samkvæmt bráðabirgðaskráningu skrifstofu Umferðarráðs urðu sex slys með meiðslum á fólki árið 1998 á þessum kafla. Samkvæmt því er tíðni slysa með meiðslum 0,08.

Spurt er: Er sýnileg breyting á slysatíðni vegna lýsingar brautarinnar? Ekki er hægt að fullyrða neitt um það að svo búnu. Lýsing var sett upp í lok árs 1996. Þegar áhrif ákveðinna aðgerða og slysafjöldi er athuguð þarf að athuga slysafjölda á þriggja til fimm ára tímabili fyrir og eftir aðgerðir. Hafa ber í huga að fjölmargir þættir hafa áhrif á fjölda slysa. T.d. skiptir veður mjög miklu máli.

Heildarfjöldi slysa árið 1997 á þeim kafla Reykjanesbrautar sem nær frá Krísuvíkurvegi til Keflavíkur, var lægri en meðalfjöldi slysa á ári á tímabilinu 1992--1996. Hins vegar var hann sá sami og árið 1995. Fjöldi slysa með meiðslum á fólki á þessum kafla var meiri árið 1997 en að meðaltali næstu fimm ár á undan.

Bráðabirgðatölur fyrir árið 1998 virðast lofa góðu en rétt er að hafa í huga að veturinn 1998 var mjög snjóléttur. Að auki má geta þess að Vegagerðin hefur á síðustu árum gert ýmsar ráðstafanir til að auka umferðaröryggi á Reykjanesbraut. Sem dæmi má nefna að hálkuvarnir hafa verið auknar til muna og bundið slitlag verið lagt á axlir. Auk þess hefur lögreglueftirlit verið aukið.

Herra forseti. Tími minn er þrotinn og ég mun svara síðustu spurningunni í síðari ræðu minni.