Jöfnun á aðstöðu til náms

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:48:50 (3795)

1999-02-17 18:48:50# 123. lþ. 68.15 fundur 275. mál: #A jöfnun á aðstöðu til náms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:48]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði fyrirspurn sem er á þskj. 313. Hún lýtur að jöfnun á aðstöðu til náms og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. Hvað er gert til að bæta skilyrði þeirra nemenda á framhaldsskólastigi sem sækja nám utan heimabyggðar?

2. Hafa verið gerðar kannanir á vegum ráðuneytisins á þörf fyrir heimavistarrými fyrir nemendur á framhaldsskólastigi?``

Eins og fram kom hjá hæstv. forseta þá lagði Kristín Jóhanna Björnsdóttir varaþingmaður fram þessar spurningar. Henni vannst ekki tími til að flytja þær hér sjálf og fá svör vegna aðstæðna á þeim tíma sem hún sat á Alþingi. Það er ljóst, herra forseti, að allmikil óánægja er með framhaldsskólamál víða úti á landi, einkum á stöðum þar sem íbúar eru á bilinu kannski frá 200 og upp í 1000.

Í skýrslu menntmrh. um framfærslukostnað og lögheimilisflutninga námsmanna sem lögð var fram á þessu þingi kemur fram að viðbótarkostnaður við að hafa nemendur á framhalds- eða háskólastigi í skóla fjarri heimabyggð er á bilinu 130--375 þús. kr. að teknu tilliti til dreifbýlisstyrks, eða, herra forseti, allt að 14% af neysluútgjöldum þriggja til sex manna fjölskyldu. Það munar um minna. Og það kemur í ljós að viðbótarkostnaður fjölskyldna sem eru með nemendur í grunn- eða framhaldsskólanámi og búa á heimavistum eða í leiguhúsnæði fjarri heimabyggð, getur verið á bilinu 190--475 þús. kr.

Það er áhyggjuefni hversu mikill munur er á aðstöðu þeirra sem búa nærri framhaldsskólum eða öðrum skólum og svo aftur hinna sem búa fjarri þeim og mikið álitamál er hvernig eigi að mæta þessum mun. Það er auðvitað reynt en alltaf má gera betur og vissulega þarf að gera miklu betur, enda hefur komið í ljós að 30% af því landsbyggðarfólki sem hyggur á flutninga gerir það af menntaástæðum.

Herra forseti. Það er spurning hvað er verið að gera og hvort hæstv. ráðherra geti reitt hér fram svör til að mæta þeim áhyggjum og væntingum sem landsbyggðarfólk hefur í þessu máli. Það er ljóst að nefnd sú sem sett var á laggirnar, m.a. með hliðsjón af væntanlegri eða hugsanlegri kjördæmabreytingu, hefur unnið eitthvað í málinu. Því verður fróðlegt, herra forseti, að heyra svör hæstv. ráðherra við þessari fyrirspurn.